Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Fjáraukalög, það er dálítið athyglisvert að reyna að átta sig á því hverju er verið að bæta við. Ég hélt alltaf að fjáraukalög, áður en ég kom hingað á þing, væri það að allt í einu yrðu til einhverjir peningar og það þyrfti að búa til einhver lög í kringum þá. En svo komst ég að því að þetta er í raun uppfærsla í lok ársins, getur reyndar gerst fyrr á árinu líka en er núna oftast í lok ársins, þar sem verið er að stilla af það sem kannski var vitlaust metið en einnig að takast á við þá hluti sem hafa breyst á árinu.

Það er nú þannig, ef maður les í gegnum fjárlagafrumvarpið og reynir að fletta sig í gegnum hin ýmsu málefnasvið, að í raun eru einkum þrjár ástæður gefnar fyrir því að það er hækkun eða lækkun. Sú fyrsta er stríðið í Úkraínu og þær afleiðingar sem það hefur haft á hin ýmsu málefnasvið. Í öðru lagi er enn að finna, í frumvarpi um fjáraukalög, óvæntan kostnað vegna heimsfaraldurs. Það er kannski svolítið skrýtið að hann hafi verið óvæntur vegna þess að við vorum í miðjum heimsfaraldri þegar fjárlögin fyrir síðasta ár voru samþykkt. Því hefði kannski mátt sjá eitthvað af þessu fyrir, en við skulum ekki vera of kröfuhörð á það. Það þurfti að taka ákvarðanir fyrr á þessu ári sem kannski var ekki búið að gera ráð fyrir. Í þriðja lagi þá er ekki alltaf hægt að spá nákvæmlega fyrir um allt. Við sjáum það kannski einna helst í því að það koma breytingar á hlutum. Við getum bara tekið eitt dæmi, við vitum ekki hvort fjöldi barna á næsta ári mun verða svipaður og á þessu ári; kannski ákveða Íslendingar allt í einu að eignast fullt af börnum á næsta ári og það hefur t.d. áhrif á fæðingarorlof og ýmislegt annað.

Mig langaði að nota tímann og renna örstutt í gegnum frumvarpið sem við erum með hér eftir 2. umr. og þá er búið að taka tillit til margra þátta. Mig langaði aðeins að stikla á stóru, bara þannig að fólk átti sig á því hverju verið er að breyta. Heildarupphæðirnar eru nú bara ágætlega háar. Það er verið að breyta rúmlega 80 milljörðum, getur það passað? Við finnum út úr því. Við fáum einhvern sem er góður í að lesa út úr heildartölunni til að finna það út.

Ég ætla að renna hratt í gegnum þetta, bara eins og þetta er sett upp. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að undir liðnum samstarf um öryggis- og varnarmál þurfti að bæta í. Við sáum svo sannarlega ekki fyrir okkur innrás Rússlands í Úkraínu þegar við vorum að samþykkja fjárlög í fyrra. Þar var bætt við um 650 milljónum. Þar eru 400 milljónir í ýmsan stuðning tengdan vörnum og 250 milljónir í hergagnaflutninga. Þess má geta, ef ég man rétt, að við erum að bæta svipaðri tölu við í fjárlögunum fyrir næsta ár og er ánægjulegt að sjá að verið er að gera það.

Hoppum hratt yfir. Næsta málefnasvið sem mig langaði að nefna er nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Þar erum við með ákveðin endurgreiðslukerfi í gangi, bæði fyrir kvikmyndagerð og rannsóknir og þróun. Aftur er erfitt að vita hversu margar kvikmyndir verða teknar upp á Íslandi og hversu mikið við þurfum að greiða í þetta. Við erum reyndar að stilla þetta betur af og færa þetta nær raunveruleikanum í nýju fjárlögunum en í þessum fjáraukalögum var 1.750 milljónum bætt við vegna endurgreiðslu kvikmyndagerðar og svo voru 60 milljónir settar í nýsköpun tengda heilbrigðislausnum.

Ef við hoppum næst yfir í flokk 09.10, sem er löggæslan, þá er þar verið að bæta við samtals um 380 milljónum, svona nokkurn veginn. Stærstu tveir póstarnir eru tengdir auknum kostnaði ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kórónuveirunnar. Það eru 371 milljón og svo eru 30 milljónir í réttargæslugátt sem ég fjallaði um þegar við vorum að ræða fjárlögin, góð lausn til að auka innsýn brotaþola og gerenda í það hvernig mál þeirra standa. Það er líka ánægjulegt að sjá að á milli umræðna, eða þegar við vorum að greiða atkvæði í 2. umr., bættust 150 milljónir við í fullnustumál en það eru fangelsismálin. Það er viðbót við 28,1 milljón sem var búið að eyrnamerkja vegna aukins kostnaðar vegna kórónuveirufaraldurs í fangelsum. Þessum 150 milljónum er ætlað að tækla sumt af þeim uppsafnaða fjárhagsvanda sem var í fangelsum og munu vonandi nýtast vel, auk þess sem verið er að auka fjárframlag á næsta ári, ef ég man rétt, sem vonandi leiðir til þess að gerðar verða bætur og ýmsar lagfæringar og annað varðandi fangelsismál hér á landi.

Undir liðinn samgöngur eru settar 300 milljónir í almenningssamgöngur. Ég veit að margir hefðu viljað sjá hærri upphæð en hver króna skiptir máli þannig að það er ánægjulegt. Undir landbúnaðarmálum er ansi há upphæð. Það eru alveg 2 milljarðar, u.þ.b. 2,2, sem koma inn í stuðning við bændur. Ástæðan fyrir því er líka nokkuð sem við höfum heyrt nokkrum sinnum áður, Úkraína, hærri kostnaður við áburð og ýmislegt annað, þannig að það er mjög skiljanlegt. Það er líka verið að bæta við fjármagni í Bjargráðasjóð upp á 30 milljónir sem er mjög ánægjulegt að sjá. Við vorum með umræðu hér fyrr í mánuðinum, ef ég man rétt, um hvort sameina ætti hann Náttúruhamfarasjóði. Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist í því. Hvað getum við farið í fleira? Jú, það er ánægjulegt að sjá styrk hér upp á 146 milljónir til Þjóðleikhússins vegna kórónuveirufaraldursins, 450 milljónir sem voru settar til tónlistar- og sviðslistafólks til þess að bæta upp vegna kórónuveirunnar.

Einnig er ánægjulegt að sjá, undir íþrótta- og æskulýðsmálum, að þar er bæði verið að bæta við 130 milljónum til barna og fjölskyldna eftir kórónuveirufaraldurinn og 450 milljónum til íþróttafélaga. Eins og þið heyrið er ég að fara frekar hratt í gegnum þetta og stikla á stóru. En það er líka ánægjulegt að sjá að þegar við förum undir skólastigin er verið að bæta við peningum í bæði leik- og grunnskóla og eins í framhaldsfræðslu til þess að auka við íslenskukennslu fyrir börn frá Úkraínu en líka almennt til leikskóla og grunnskóla til að geta betur tekið á móti börnunum frá Úkraínu.

Stærstu flokkarnir sem eru að breytast eru tengdir sjúkraþjónustunni og heilbrigðiskerfinu. Ófyrirséður kostnaður Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri er samtals 9,5 milljarðar. Það er verið að setja peninga í heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og heilsugæsluna vegna kórónuveirufaraldursins, Sjúkratryggingar Íslands fá meira fjármagn vegna kórónuveirufaraldursins; 260 milljónir í aukinn kostnað við tannlækningar, þannig að vonandi er tannheilsa íslenskra barna aðeins að batna. Það er líka ánægjulegt að sjá 84,3 milljónir settar í geðheilsu fanga og 50 milljónir í neyslurými sem við höfum verið að þrýsta mikið á. Sjúkraflutningar, þar er verið að auka við fjármagn og aftur vegna kórónuveirufaraldursins. Það er líka ánægjulegt að sjá að vegna ferðaheimilda fyrir fólk innanlands, þ.e. að fólk fái niðurgreiddar ferðir utan af landi til að sækja sjúkrahúsþjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu, verður bætt við 6,1 milljón; það eru smápeningar en skipta miklu máli fyrir það fólk sem í hlut á. Það er rúmur milljarður sem fer í hjúkrunarheimilin vegna kórónuveirufaraldursins og lyf og lyfjakostnaður hækkar heilmikið, samtals um 3,2 milljarða. Það skýrist þannig að um 2,6 af þessu er hreinlega endurmat á kostnaði en inni í þessu eru til viðbótar 306 milljónir sem fara í Covid-tengd lyf. Við eyddum líka 49 milljónum í öndunarvélar, það er ánægjulegt að sjá það kom hingað inn en það er ekki há upphæð allt í allt.

Þegar kemur að örorkubótunum þá eru nokkrar breytingar þar. Dómur féll um framfærsluuppbót sem kostaði ríkið 2,8 milljarða. Þann 1. júní var tilkynnt 3% hækkun bóta og það kostaði 1,5 milljarða og svo erum við núna að samþykkja eingreiðslu sem kostaði 650 milljónir. Barnabótaaukinn sem var kynntur í maí er 1,1 milljón. Fæðingarorlofið, sá tími sem fólk er að fara í fæðingarorlof hefur aðeins lengst en þeim hefur einnig fjölgað sem fara í fæðingarorlof.

Ég ætla að nota þær mínútur sem eftir eru til þess að tala um mál sem ég lagði fram við 2. umr., en því miður var ekki tekið tillit til þess. Þannig var að a.m.k. 1.183 milljónir voru lagðar í kostnað vegna Úkraínu, sem lagðist á málefnasvið 35, alþjóðlega þróunarsamvinnu. Til að koma til móts við það á þessu ári er í fjáraukalögunum 400 milljónum bætt inn á þetta málefnasvið. Ég lagði til að þetta yrði að fullu bætt, þ.e. að öðrum 783 milljónum yrði bætt inn þannig að hægt væri að halda áfram stuðningi við önnur brýn alþjóðleg verkefni. Því miður hlaut sú tillaga mín ekki brautargengi í meðförum þingsins en við höldum áfram að berjast um það í næstu fjárlögum. Ef hækkanir eru miklar til Úkraínu munum við að sjálfsögðu berjast fyrir því að í næstu fjáraukalögum, fyrir 2023, verði tekið meira á þeim kostnaði.