Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[23:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Þá erum við loksins komin í fjáraukalagafrumvarpið okkar góða. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu við fjáraukann um að við bætist nýtt málefnasvið og nýr málaflokkur: 28, Málefni aldraðra. 28.30, Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur. Fjárheimildir hækki þannig að framlag úr ríkissjóði málaflokksins verði 126 millj. kr.

Greinargerð: Lagt er til að hækka framlög á málefnasviði 28 svo að greiða megi 60.300 kr. eingreiðslu í desember til ellilífeyrisþega sem fá greiddan óskertan ellilífeyri almannatrygginga, þ.e. hafa lægri tekjur en sem nemur frítekjumörkum 3. og 4. málsliðar 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar á ársgrundvelli. Samkvæmt upplýsingum sem við í Flokki fólksins fengum í morgun frá Tryggingastofnun ríkisins tekur tillaga okkar hér og nú til 2.080 einstaklinga. Við erum búin að smætta hana mikið niður frá því sem var þegar við lögðum hana fram áður þar sem henni hafði verið hafnað. Hvað sem verður um hana þegar kemur að atkvæðagreiðslu þá er hún a.m.k. hér til staðar og við mælum fyrir henni.

Í hópi þessara 2.080 einstaklinga sem tillagan nær utan um núna eru 1.032 þeirra öryrkjar sem fá nú ellilífeyri í stað örorkulífeyris, hópurinn sem ég hef ítrekað verið að benda á að hefur stigið yfir þröskuldinn við að verða 67 ára, margir hverjir misst svokallaða aldurstengda örorkuuppbót og eru í rauninni langt undir lágmarksframfærsluviðmiði. Það er rétt að taka fram að tillagan nær ekki til fólks sem dvelur á hjúkrunarrýmum enda fellur ellilífeyri þeirra niður eftir sex mánaða dvöl þar, samanber 21. gr. laga um málefni aldraðra og 48. gr. laga um almannatryggingar. Gert er ráð fyrir að lögð verði til breyting á lögum um almannatryggingar til að tryggja að þessi viðbótargreiðsla verði skattfrjáls og hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur til ellilífeyrisþega.

Þá legg ég líka til hækkun á framlögum um 149 millj. kr. á málefnasviði 32 til að styrkja hjálparstofnanir sem úthluta matargjöfum og í mörgum tilvikum fatnaði og nauðsynjum til handa fátæku fólki. Loks er lagt til að lækka fjárfestingarframlög um 5.981 millj. kr. og falla frá kaupum ríkisins í höfuðstöðvum Landsbankans við Austurbakka. Ég hef ítrekað talað um að okkur í Flokki fólksins þykir alltaf að við eigum að fjárfesta í fólki fyrst og setja það ævinlega í fyrsta sæti og forgangsraða fjármunum svo að allir megi búa við mannsæmandi kjör. Þessir tæplega 6.000 milljarðar sem hæstv. fjármálaráðherra óskar hér heimilda til í fjáraukalögum eru betur komnir að mati Flokks fólksins í málefni fólks sem þarf á hjálp okkar að halda.

Ég ætla ekki að halda frekari ræðu um þetta. Ég mæli hér fyrir þessum breytingartillögum við fjáraukalögin og svo sjáum við til hvað um þær verður, hvort við fylgjum þeim eftir í atkvæðagreiðslu eða hvernig það verður.