Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek heils hugar undir það sem hann hefur nefnt hér, að ein af ástæðunum er þessi þétting byggðar sem er svolítið sérstakt fyrirbæri og virðist vera mikið áhugasvið hjá þessum meiri hluta í borginni. Engu að síður þá held ég bara að borgaryfirvöld hafi gert gríðarleg mistök með því að horfa ekki í það mikla menningarsögulega gildi sem þessi gamla húsagerðarlist hefur, það mikla aðdráttarafl sem hún hefur gagnvart almenningi, ferðamönnum. Þótt það sé kannski ekki alveg hliðstætt dæmi þá sjáum við að nýi miðbærinn á Selfossi, sem er húsagerð í gömlum stíl og endurbyggð hús, þekkt hús, gömul hús, hefur fengið afar góðar viðtökur þar og það er ljóst að fólk sækir í þessa gömlu miðbæi. Þess vegna spyr maður sig hvers vegna þetta skilningsleysi borgaryfirvalda um árabil, þessa meiri hluta, skuli vera við lýði, sem er í raun og veru sorglegt. Eins og hv. þingmaður nefndi í sinni ágætu ræðu þá eigum við bara mjög fá hús, gömul hús, og það á að sjálfsögðu að sýna þeim þann sóma sem þau eiga skilið með því að varðveita þau. Það er algjör skammtímahugsun að rífa svona gömul hús og byggja einhver, eins og hv. þingmaður nefndi, stálgrindarhús með gleri o.s.frv. Þetta er ekki það sem fólk er að kalla eftir, ég er alveg sannfærður um það. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott innlegg inn í þessa umræðu, enda hefur hann mjög góða þekkingu á málefninu og hefur lagt margt mjög gott til málanna í þeim efnum.