Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[21:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að byrja á öðrum nótum í mínu andsvari en ég verð að spyrja hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, framsögumann nefndarálits meiri hluta, hvort hún telji það virkilega boðlegt að tilgreina hér framlagningu málsins á síðasta þingi þar sem málið var í einhvers lags saltpækli lengstum og síðan sett inn nefndarálit sem er núna notað sem rökstuðningur fyrir grundvallarbreytingum á málinu sem í engu var fjallað um í nefndinni. Hv. þingmaður þekkir þetta alveg. Nefndarálitið kom fram undir lok síðasta þings, á síðasta nefndarfundi, og var ekki rætt. Það var bara lesið upp. Er boðlegt að það sé rökstuðningur fyrir þessum grundvallarbreytingum og síðan sé því hér síendurtekið haldið fram að málið hafi fengið að þroskast í nefnd með þessum ítrekuðu framlagningum? Frá árinu 2020 hefur ekkert verið fjallað efnislega um málið þar til nú á þessu þingi. Árið 2020 var fjallað um það en síðan hefur það bara verið lagt fram og ekkert gert með það í raun þangað til þessi undarlega aðgerð var framkvæmd af fulltrúum meiri hlutans undir lok síðasta þings, að leggja fram nefndarálit með grundvallarbreytingum sem mann grunar að ýmsir sem undir það skrifuðu hafi ekki lesið, miðað við viðbrögðin á seinni stigum, og svo er það notað sem sérstakur rökstuðningur fyrir því að umbylta frumvarpinu og þar með starfsskilyrðum leigubílstjóra.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé raunverulega þeirrar skoðunar að það verklag hafi verið til bóta í þessum efnum. Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann og framsögumann hvort hún telji það málinu til bóta að grundvöllur þess frá árinu 2017 styrkist með því að Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra hafi ekki átt sæti í þeim starfshópi sem vann skýrslu í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA.