Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér enn einu sinni mál er varðar grundvallarbreytingar á regluumhverfi leigubifreiðaaksturs á Íslandi, frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur, eins og það heitir hér, frá innviðaráðherra. Mér hefur lengi þótt það heldur sérstakt að ráðherra Framsóknarflokksins skuli leggja jafn mikla áherslu á að umbylta rekstrarumhverfi og starfsskilyrðum heillar stéttar án þess að stéttin hafi haft mikla aðkomu að því eða umræðugrundvöll. Okkur þingmönnum öllum barst hér í fyrradag bréf frá Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, þar sem stuttlega er farið í aðdraganda þessa máls, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Upphaf þessa máls má rekja til ársins 2017 þegar Eftirlitsstofnun EFTA gekkst fyrir frumkvæðisathugun á lagaumhverfi leigubifreiða hér á landi og taldi í áliti sínu að ólögmætar hindranir væru í vegi inngöngu í stétt leigubifreiðastjóra. Í kjölfarið var stofnaður starfshópur sem skyldi gera tillögur að endurskoðun laga um leigubifreiðaakstur. Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra átti ekki sæti í þeim starfshópi.“

Þetta kemur nú bara frá þeim sem framsögumaður meirihlutanefndarálits heldur fram að hafi átt þar sæti. Ég hallast að því að taka þau orð Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra sem bárust í bréfi til allra þingmanna í fyrradag trúanleg í þessum efnum. Hver þessi fulltrúi var sem var í þessari nefnd hæstv. innviðaráðherra, eins og það heitir núna, þarf að leiða fram með upplýsingum í annan tíma. Í öllu falli bendir allt til þess, samkvæmt þessari yfirlýsingu í bréfi Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, að bandalagið hafi ekki átt sæti í þessum starfshópi, sem er auðvitað mjög sérstakt en það kannski skýrir hversu lítið tillit hefur verið tekið til sjónarmiða leigubifreiðastjóra í vinnslu málsins allri.

Nú er málið lagt fram í fjórða sinn og við framlagningu á þessu þingi var reynt að stilla málum þannig upp að málið væri í raun fullrætt fyrir löngu. Það væri búið að koma svo oft fram og það væri búið að ræða það svo mikið í nefnd að það þyrfti litla vinnu í þetta skiptið. Sú nálgun er auðvitað alger fásinna, sérstaklega í ljósi þeirra grundvallarbreytinga sem voru gerðar með nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar sem kom fram undir lok síðasta þings og fæstir tóku eftir í raun og voru aldrei ræddar hér í þingsal. Mér er til efs að viðlíka grundvallarbreytingar hafi verið gerðar á starfsskilyrðum nokkurrar stéttar á Íslandi og að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða stéttarinnar með jafn litlum og áhrifalitlum hætti og gert er í þessu máli. Með vísan m.a. í þá grundvallarbreytingu sem er nú rökstudd með framlagningu þessa nefndarálits á síðasta þingi þá skil ég það sem svo að eina aðkoma leigubifreiðastjóra á milli þinga hafi verið auglýsingin í samráðsgátt stjórnvalda sem vissulega er öllum opin en það gæti ekki verið snautlegra samráðið en það sem grundvallaðist á því einu.

Þessar athugasemdir grundvallast, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson kom inn á í andsvari sínu áðan, á athugasemdum frá Brussel sem komu fram upphaflega árið 2017. Það er víða erlendis verið að vinda ofan af, a.m.k. að hluta til, þeim breytingum sem voru gerðar með svipuðum rökum á fyrri stigum. Mér hefur þótt alveg undarlegt að stjórnvöld hér heima vilji ekki bíða niðurstöðu þeirrar endurskoðunar og greiningar sem er verið að vinna í Noregi núna og áætluð verklok í þeim efnum eru á næsta ári. Gagnvart athugasemdum sem hafa verið settar fram árið 2017 þá skiptir ekki öllu máli hvort gildistaka laganna sé 1. janúar 2023, eins og lagt er fram í frumvarpinu, eða 1. apríl 2024. Er það ekki, hv. framsögumaður, það sem er nú lagt til?

Ég held að það væri margra hluta vegna skynsamlegt að fresta gildistöku laganna. ESA mun róast. Fyrir þá sem hafa áhyggjur af því að fá bréf frá ESA þá mun ESA róast þegar fyrir liggur að lagagrundvöllur hefur verið settur að því gefnu að það komi ekki fram tilefni til meiri háttar breytinga í ljósi niðurstöðu skoðunar þeirra norsku á reynslu og áhrifum þeirra breytinga sem þar voru gerðar. Ég held því að við ættum að skoða það með opnum huga. Ég vil flagga því hér að ég reikna með að leggja fram breytingartillögu þess efnis við afgreiðslu málsins þar sem þingheimur fær tækifæri til þess að taka afstöðu til þess að gildistími laganna verði 1. janúar 2024 en ekki 1. apríl 2023. Það ætti að gefa okkur tilefni til að stíga inn í málið og gera breytingar á því ef vinna norskra stjórnvalda leiðir í ljós að farið hafi verr með þær breytingar sem þar voru innleiddar heldur en ætlunin var.

Aðeins aftur varðandi þinglegu meðferðina þá langar mig að koma inn á atriði í nefndaráliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar en undir það nefndarálit skrifa Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sem framsögumaður, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Ég vona að þau fyrirgefi mér að nota þennan texta úr nefndaráliti þeirra en mér finnst hann bara að ramma þetta svo ágætlega inn að ég ætla að fá að lesa hann hér upp, með leyfi forseta. Þetta fjallar um þinglega meðferð og segir svo:

„Í greinargerð frumvarpsins er farið yfir forsögu málsins en ekki vikið að þeim óvenjulega framgangi sem það hlaut á 152. löggjafarþingi. Ráðherra mælti fyrir frumvarpinu 1. mars 2022 (369. mál), en afturkallaði það skömmu síðar og mælti aftur fyrir því með smávægilegum lagfæringum 17. maí (470. mál). Frumvarpið gekk því ekki til nefndar fyrr en þremur mánuðum eftir að það var lagt fram í fyrsta sinn og þegar aðeins mánuður var eftir af þingvetrinum. Engu að síður boðaði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hluta umsagnaraðila á fund nefndarinnar 11. júní,“ — 11. júní sem er alveg undir þinglok og þinglokasamningar um garð gengnir — „helgina áður en þingi var frestað fyrir sumarhlé, en á þeim tímapunkti var orðið ljóst að ekki væri stefnt að afgreiðslu málsins fyrir þingfrestun. Á grundvelli þeirrar vinnu – þar sem hvorki var kallað eftir þeim greiningum sem nauðsynlegar hefðu verið fyrir vandaða þinglega meðferð málsins, né heldur öllum umsagnaraðilum gefinn kostur á að mæta á fund nefndarinnar – lagði meiri hlutinn fram nefndarálit og afgreiddi málið úr nefnd. Þessu mótmæltu fulltrúar minni hlutans enda hafði umfjöllun nefndarinnar verið í skötulíki vegna hroðvirknislegra vinnubragða stjórnarmeirihlutans við að keyra málið í gegn. Sérstaklega er alvarlegt að hvorki Blindrafélagið né Öryrkjabandalagið fengu boð á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir umsögnum sínum, en þar með sniðgekk nefndin samráðsskyldu stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samkvæmt samningnum skulu aðildarríki hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess við þróun og innleiðingu löggjafar.“

Þessi texti þykir mér því miður ramma inn býsna vel það verklag sem viðhaft hefur verið við vinnslu þessa máls og undirstrika þá furðuaðgerð sem átti sér stað undir lok síðasta löggjafarþings með framlagningu nefndarálits meiri hlutans og úttekt málsins úr nefnd sem er síðan notað sem rökstuðningur fyrir breytingum á milli ára, breytingum sem eru rökstuddar með þessu nefndaráliti sem var lagt fram í því ljósi sem hér er lýst býsna nákvæmlega.

Það eru atriði eins og þetta. Mig langar hér að líta til umsagnar Blindrafélagsins sem var send umhverfis- og samgöngunefnd 26. maí 2022. Þar segir, með leyfi forseta:

„Blindrafélagið óttast að ofuráhersla verði á aukið framboð leigubifreiða á háannatímum um helgar. Það muni leiða til lakari rekstrargrundvallar og þar með fækkun þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalstarfi, með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum á framboð leigubifreiða á virkum dögum.“

Áfram segir:

„Notendur ferðaþjónustu Blindrafélagsins, sem reiða sig á leigubílaþjónustu hafa mjög ólíkar þarfir og eru mismikið fatlaðir. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að fatlað fólk almennt er útsettara fyrir hverskonar ofbeldi og misnotkun og þá sérstaklega í þjónustusamböndum. Því er það sérstaklega mikilvægt að allur lagarammi varðandi þjónustu og starfsmannahald sem snýr að fötluðu fólki sé skýr og gætt sé að fyllsta öruggi. Þar er ekki eingöngu um að ræða fötlun vegna sjónmissis heldur er einnig um að ræða einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu og einstaklinga, með geðrænar fatlanir og þroskaskerðingar til viðbótar við sjónmissinn.

Það að afnema stöðvarskyldu og draga úr kröfum til bílstjóranna mun að mati Blindrafélagsins skerða þjónustuna og öryggi farþeganna, sérílagi farþega sem tilheyra viðkvæmum hópum.“

Mig langar sömuleiðis að nefna atriði sem kemur fram í umsögn Blindrafélagsins frá 8. janúar 2020, þegar sá sem hér stendur var formaður umhverfis- og samgöngunefndar og þetta mál dagaði uppi, vegna þess að það rammar inn það fyrirkomulag sem hefur þróast með býsna skynsamlegum og jákvæðum hætti fyrir þá sem sérstaklega veikir standa í þessu samhengi. Í þessari umsögn Blindrafélagsins frá árinu 2020 segir, með leyfi forseta:

„Allt frá 1997 hefur Blindrafélagið verið með samning við Reykjavíkurborg annarsvegar og Hreyfil hins vegar um ferðaþjónustu við lögblinda Reykvíkinga. Á þeim 22 árum sem liðin eru frá því að þetta samstarf hófs hefur orðið til mikil reynsla og þekking á því hvernig þetta úrræði hefur reynst saman borið við önnur úrræði í ferðaþjónustu við fatlað fólk, auk þess sem verkferlar og skráning hefur þróast mikið á þessum árum. Það sem að einkennir ferðaþjónusta Blindrafélagsins er að það er þjónustuúrræði sem nýtir leigubílaþjónustu sem fyrir er í samfélaginu.

Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra bera sveitarfélög ábyrgð á að bjóða þeim sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur ferðaþjónustu sem gerir þeim kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir. Í lögum um málefni fólks með langvarandi stuðningsþarfir er kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli litið til alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að, svo sem Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 20. grein samningsins er fjallað um ferlimál einstaklinga og í greininni segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því „að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi.

Þá að gjaldinu, með leyfi forseta, áfram úr þessari umsögn Blindrafélagsins:

„Hver ferð í Ferðaþjónustu við fatlaða á höfuðborgarsvæðinu kostar að meðaltali um 3.500 krónur fyrir Reykjavíkurborg, í ferðaþjónustu Blindrafélagsins kostar hver ferða að jafnaði 2.200 kr. Munurinn er 59%. Ánægja með ferðaþjónustu Blindrafélagsins meðal notenda hefur ávalt verið meiri en meðal notenda ferðaþjónustu fatlaðra, þrátt fyrir að kostnaðarþátttaka notenda sé mun hærri í ferðaþjónustu Blindrafélagsins Þegar kannanir hafa verið gerðar meðal lögblindra einstaklinga þá kemur í ljós að ferðaþjónustu Blindrafélagsins er dýrmætasta þjónustuúrræðið sem þeim stendur til boða. Það endurspeglast svo í því að atvinnuþátttaka meðal lögblindra einstaklinga er mjög há á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.“

Það er einmitt þessi staða sem er verið að setja í hættu sé kastað til hendinni varðandi starfsumhverfi leigubifreiðastjóra. Það velkist enginn í vafa um að þær áhyggjur sem koma fram í umsögn Blindrafélagsins frá því núna í maí 2022 séu réttmætar. Þegar Blindrafélagið segir, með leyfi forseta:

„Blindrafélagið óttast að ofuráhersla verði á aukið framboð leigubifreiða á háannatímum um helgar. Það muni leiða til lakari rekstrargrundvallar og þar með fækkun þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalstarfi, með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum á framboð leigubifreiða á virkum dögum.“

Það er einmitt á virkum dögum sem þessi þjónusta er svo sérstaklega mikilvæg, þegar verið er að koma lögblindum til náms, til vinnu og þar fram eftir götunum. Ég veit það bara að hv. þm. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur sagt mér að hún hefði aldrei klárað sitt laganám nema fyrir þessa góðu þjónustu sem þarna var í boði. Þannig að dæmi um þetta eru nærri okkur með einum eða öðrum hætti, hverju og einu. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að mál eins og þetta sé ekki keyrt áfram bara af því bara, af því að menn séu búnir að reyna svo oft að nú bara verði það klárað, af því að nú sé lag. Nú sé búið að semja einhvern veginn þannig um að aðrir stjórnarflokkar fái einhver önnur mál í gegn og menn ætli að nýta þessa ferð og klára þetta með leigubílana, það sé búið að hanga yfir hausamótunum á mönnum allt of lengi. Það eru ekki góð rök fyrir því að gera grundvallarbreytingar á starfsumhverfi heillar stéttar, stéttar sem telur vel á sjötta hundruð manns. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að þessi stétt hafi fengið jafn litla áheyrn og raunin er og fyrirsvarsmenn þeirra lýsa núna.

Mér segir svo hugur að hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, framsögumaður nefndarálits meiri hluta, ætli að koma hér upp í andsvar og tilkynna um fulltrúa leigubílstjóra í þessari vinnu frá 2017 en það kemur þá í ljós hver það hefur verið. Það er í öllu falli þannig að Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra lýsir því bara í fyrradag að bandalagið hefði ekki átt sæti í þeim starfshópi. Bara það að mál sé búið að taka um fimm ár í vinnslu hlýtur auðvitað að kalla á að það sé rætt við þá sem eru í fyrirsvari fyrir stéttina þegar málið er klárað eins og nú stefnir í, því miður, með þeim hætti sem liggur fyrir. Það þýðir ekki að berja hausnum við steininn og segja: Ja, það var einhver fulltrúi þarna sem enginn kannast við í dag að hafi talað máli þeirra sem í stéttinni eru eins og staðan er núna. Það er ekki sanngjörn nálgun. Og að ýta sjónarmiðum þeirra sem tala fyrir hönd stéttarinnar frá árum saman á seinni stigum þessa máls á þeim grundvelli, það gengur auðvitað ekki.

Það er annað sem er nauðsynlegt að nefna í þessu samhengi en það er sú staða sem leigubílstjórar fundu sig í í gegnum Covid-tímabilið sem nú er sem betur fer lokið. Það eru fáar stéttir ef nokkrar sem féllu jafn illa milli skips og bryggju hvað stuðningsaðgerðir og lausnir stjórnvalda varðar. Það verður auðvitað að horfa til þess með skilningi að margir úr þeim hópi hafa neyðst til þess að líta til annarra starfa á meðan ástandið var eins og það var, á meðan stjórnvöld bönnuðu fólki beinlínis að nýta starfskrafta sína og atvinnutæki til að afla sér tekna. Þá er ekki nema eðlilegt að hluti þessa hóps hafi farið í aðrar áttir tímabundið til að ala önn fyrir sér og sinni fjölskyldu. Það að málið sé keyrt í gegn núna af öllum tímapunktum er sérstaklega ónotalegt í ljósi þess að þessi hópur, leigubifreiðastjórar sem hafa sinnt með framúrskarandi hætti áratugum saman þjónustu við landsmenn alla og auðvitað mest hér á höfuðborgarsvæðinu — þetta er svolítið eins og að sparka í liggjandi mann. Þeir eru sennilega að koma út úr sinni snúnustu stöðu sé horft langt aftur í tímann, fjárhagslega, rekstrarlega og í sjálfu sér samfélagslega og andlega líka, af því að það er engin smá þolraun að fara í gegnum tímabil þar sem ákvarðanir stjórnvalda verða þess valdandi að rekstrargrundvelli er kippt undan rekstri sem byggður hefur verið upp um ár og áratugi.

Í þessu ljósi tel ég að við ættum að flýta okkur hægt og ég bara flagga því hér strax að fulltrúar Miðflokksins, og vonandi verða fleiri með okkur á þeirri tillögu, munu leggja fram breytingartillögu við afgreiðslu málsins um að gildistaka laganna verði færð aftur, a.m.k. til byrjunar árs 2024, mögulega örlítið lengur, til þess að Alþingi, þingmönnum og ráðuneyti gefist ráðrúm til að skoða það sem kemur út úr vinnu Norðmanna sem nú er í gangi hvað það varðar að meta áhrif sambærilegra breytinga þar í landi.