Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég lýsti áhyggjum Blindrafélagsins hér fyrr í umræðunni. Hv. þingmaður hefur nýtt sér þessa þjónustu árum saman og lýsti hér ágætlega áðan mikilvægi hennar gagnvart þeim sem hana þurfa að nota, t.d. börnum sem búa við þau skilyrði að leigubifreiðaþjónustan er mikilvægur stuðningur. Það sem Blindrafélagið kom inn á í umsögn sinni og ég tek undir er að það er líklegt að sú viðbót sem kæmi inn á markaðinn, af þjónustuaðilum skulum við kalla þá, komi að meginhluta til inn á þessum háannatímum, fleyti rjómann eins og það var orðað hér áðan, en að sama skapi muni heltast úr lestinni aðilar sem þjónusta þennan markað í dag á þessum almenna tíma, virka daga, morgna, um miðjan dag, þegar þeir sem nýta þessa þjónustu á grundvelli samnings Blindrafélagsins t.d. þurfa mest á henni að halda. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að við finnum okkur í þeirri stöðu, verði það raunin að þeir sem koma nýir inn á markaðinn vegna þessara breytinga sinni fyrst og fremst háönninni hvað þjónustu varðar, að við verðum fyrir þannig þjónustuskerðingu á virkum dögum, til að mynda í byrjun dags og um miðjan dag þegar vinnu eða skólum lýkur, að þjónustunni fari verulega aftur á þeim tímum sem til að mynda að þeir sem nýta sér þjónustu á grundvelli samnings Blindrafélagsins við Hreyfil nota hana?