Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hver er hættan og hver er ógnin og er ekki trygging? Staðreyndin er þessi, hv. þingmaður, með fullri virðingu, að hér er algjörlega blint í sjóinn rennt. Eins og ég sagði hér áðan: Við vitum hvað við höfum, við vitum ekkert hvað verður. Það er enginn sem er kominn til með að segja það á nokkrum tímapunkti að þetta muni lánast hjá okkur frekar en hjá þeim þar sem það hefur ekki gengið upp. Ég er að benda á það sem vel hefur gengið. Vel hefur gengið í þjónustu við fatlað fólk, við lítil börn og annað slíkt og ég vil þess vegna segja við hv. þingmann: Ætlar hv. þingmaður að segja mér það hér og nú að það verði engin breyting á öryggi, tryggingu og þjónustu við okkur sem höfum þurft að nýta þjónustuna með þeim formerkjum sem hér eru og með þeim breytingum á leigubílaakstri eins og þetta frumvarp gefur til kynna? Það er eiginlega það eina sem mig langar til að vita vegna þess að ég treysti því ekki, það er bara frá innstu hjartarótum, þegar það er einhver Pétur og Páll á engri stöð og ekki neitt. Þegar hv. þingmaður tínir til tryggingar, sem er náttúrlega sagt og gert skilyrði fyrir í frumvarpinu og bla, bla, bla og allt það, með fullri virðingu, afsakaðu forseti, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að við vitum hvað við höfum. Við vitum um styrkinn sem við höfum. Við vitum um alúðina, þjónustulundina og allt sem við höfum og við vitum líka um allar sögur og allt sem við erum að fá frá öðrum löndum. Við erum pínulítið þorp í samanburði við það. Við megum ekki við þeim áföllum sem þetta frumvarp er að leggja á okkar herðar.