Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar og ég ætla nú að byrja á skottinu í þessu andsvari. Ég á verulega fatlaðan bróður og þó að hann eigi erfitt með gang þá er hann einn besti bílstjóri sem ég þekki og ég myndi treysta honum 100% til að keyra mér í hvaða bíl sem er, hvort sem það héti leigubíll eða nokkuð annað. Þegar við tölum um fleiri leyfi þá er einfaldlega verið að hælast af því núna að við erum að fá hugsanlega mestan fjölda ferðamanna á næsta ári sem hugsast getur. Það er vaxandi ferðamannafjöldi, hallelúja fyrir okkur öll, og þess vegna er vaxandi þörf fyrir það að geta boðið upp á aukna þjónustu í leigubílaakstri. Ég segi persónulega: Aukum fjölda leyfa þannig að það anni eftirspurn. Við eigum ekki að þurfa að bíða. Það eru mýmargir einstaklingar sem gjarnan vildu og hafa getu til að taka þátt. Gefum þeim möguleika til þess. Ég sé enga ástæðu til að sprengja markaðinn og skapa offramboð á markaði af einhverju sem við vitum í rauninni ekkert hvað er. Við vitum hvað við höfum. Við vitum ekki neitt hvað við fáum. Við sjáum jákvæðar, neikvæðar og ýmsar sviðsmyndir frá löndunum í kringum okkur. Byggjum undir það og styrkjum það sem við höfum. Í guðanna bænum förum ekki að taka fleiri hundruð leigubílstjóra og setja þá á atvinnuleysisbætur af því að við ætlum að gera þá atvinnulausa af því bara, af því að það er svo spennandi að fá eitthvað annað en það sem við vitum, eigum og þekkjum sem best og hefur virkað 100% og sem ég er, og ég segi aftur, endalaust þakklát fyrir.