153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt sem var áhugavert. Þar kemur hann raunverulega inn á sterkustu rökin fyrir frumvarpinu og það er þetta með frelsið. Það er raunverulega verið að takmarka frelsi þarna. Eins og segir í frumvarpinu sem varð að lögum, núgildandi lögum, þá fjallar það um skiptingu takmarkaðra gæða sem eru leyfi til aksturs leigubifreiða. Við erum að leyfisskylda akstur bifreiða með ákveðnum rökum, við erum að takmarka frelsi. Af hverju geta ekki allir keyrt leigubíla, segjum bara á kvöldin? Ég ætla að verða leigubílstjóri í kvöld. Það eru rök fyrir því og það eru sterkustu rökin en það er enginn sem kemur og heldur þessum frelsisrökum fram sem er mjög sorglegt. Það kemur ekki einu sinni fram í frumvarpinu. Þar er bara talað um ESA og aftur ESA, minnst á Noreg, svo er talað um Danmörku og svo er talað um Svíþjóð. Danmörk og Svíþjóð eru í Evrópusambandinu. Noregur er í EES-samningnum. EES-samningurinn er raunverulega norskt batterí.

Í greinargerð með frumvarpinu er fullyrt að undanþága frá algjöru frelsi í Noregi eigi bara við á strjálbýlum svæðum. Það er villandi vegna þess að undantekningar ná til Björgvin, borgar þar sem búa yfir 300.000 manns. Norðmenn t.d. ganga langt varðandi Björgvin. Við eigum að bera okkur saman við Björgvin. Reykjavíkurborg og Björgvin eru mjög svipaðar borgir, að vísu er Björgvin aðeins stærri. Þar eru verulegar takmarkanir, bæði varðandi fjölda leyfa og stöðvarskyldu. Þannig að við getum horft þangað og sagt: Við ætlum hafa svipaðar reglur á Íslandi og í Björgvin. En það er ekki einu sinni gert.

Þetta með frelsið, það er áhugaverði punkturinn. Það er enginn sem er að fjalla um þetta. Það er mjög sorglegt. Það er bara verið að tala um Brussel. Við höfum algerlega gefið þessi mál frá okkur frá a til ö. Við erum (Forseti hringir.) að stimpla og fara eftir því sem ESA vill. Það er meira að segja ekki rétt að gera það, (Forseti hringir.) við eigum að fara eftir því sem dómstóllinn vill og það er ekki kominn endanlegur úrskurður í málinu.