153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á nálægðarregluna sem er atriði sem hefur verið allt of lítið rætt í þessum sal og gengur út á það að menn innleiði regluverk til samræmis við raunveruleika hvers svæðis. Hv. þingmaður kom inn á að hér værum við upptekin við að innleiða regluverk sem á við milljónaþjóðir eða milljónaborgir á okkar til þess að gera fámenna og fíngerða höfuðborgarsvæði fyrst og fremst.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki dæmi þess síðustu ár úr fyrri störfum sínum að stjórnvöld hafi svona oft skotið með þessum hætti jafn illilega yfir markið og hér er gert hvað það varðar að aðlaga meintar kröfur Brussel, af því þetta eru enn þá bara tilskrif ESA, að stjórnvöld skjóti jafn rækilega yfir markið og hér er verið að gera gagnvart gjörbreyttu rekstrarumhverfi leigubílanna með tilliti til nálægðarreglunnar. Ég held að þeir sem hlýða á hafi gott af því að heyra hana útlistaða í stuttu máli aftur til að menn átti sig á að það er iðulega meira svigrúm þegar kemur að innleiðingum heldur en við nýtum okkur hér heima.