153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir svarið. Er ég að skilja svar hv. þingmanns rétt þegar þingmaðurinn segir, sem ég er algerlega sammála, að það hafi ekki verið tilefni til innleiðingar þriðja orkupakkans, vegna þess að enginn raforkusala, átti sér stað yfir landamæri, augljóslega — hver er afstaða þingmannsins til þeirra reglna sem hafa kallað á, af því það hefur verið nefnt hér í umræðunni fyrr í dag, endurmenntun atvinnubílstjóra til að viðhalda réttindum til að aka yfir landamæri? Telur hann að þarna hafi verið um að ræða yfirsjón eða handvömm eða afglöp þeirra sem stýrðu málum í ráðuneyti þess tíma þar sem þetta regluverk var innleitt? Það blasir við að héðan keyrir enginn með beinum hætti yfir landamæri, enginn atvinnubílstjóri. Erum við búin að setja atvinnubílstjóra landsins í nokkurra daga endurmenntunarnámskeið á nokkurra ára fresti allan þennan tíma að óþörfu? Mig grunar að ég viti hvert svar þingmannsins verði en mig langar að heyra það og mig grunar sömuleiðis að ég sé sammála svarinu ef það verður á þann veg sem mig grunar.