153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

aðgerðir vegna hælisleitenda.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra taka undir að kerfið virkaði ekki, það væri ekki í lagi eins og það er, en þess sjást lítil merki að ríkisstjórnin ætli að gera nauðsynlegar breytingar á því. Það þarf ný útlendingalög sem taka á heildarmyndinni, rétt eins og menn eru að nálgast það nú í Bretlandi þótt hæstv. fjármálaráðherra hafi takmarkaða trú á að Sunak vinur hans muni ná árangri í samræmi við tilefnið. Það má þó benda á að í Danmörku hefur náðst mjög verulegur árangur, sérstaklega í samanburði við Ísland. Það er í rauninni sama hvaða annað Evrópuland er borið saman við Ísland varðandi þessa þróun, umfang vandans hefur hvergi aukist eins mikið hlutfallslega og á Íslandi. Það hlýtur að kalla á einhverjar aðgerðir stjórnvalda í stað þess að menn haldi áfram að missa stjórnina, sem þeir eru reyndar nú þegar búnir að missa.