Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um fjárlagabandorm ríkisstjórnarinnar. Í honum birtist afleit forgangsröðun í skattamálum, vond skattapólitík þar sem farin er sú leið að varpa öllu aðhaldinu á tekjuhlið ríkisfjármála yfir á almenning, m.a. í formi hækkunar á flötum krónutölugjöldum sem er fram úr öllu hófi og nánast hver einasti umsagnaraðili sem kom fyrir nefndina varaði eindregið við. Sú hækkun mun ýta upp vísitölu neysluverðs. Þetta er afleit leið til að sporna gegn verðbólgu. Við í minni hlutanum höfum lagt til aðrar leiðir til að sporna gegn verðbólgu og munu mæla fyrir þeim hér á eftir. En þetta er ríkisfjármála- og skattapólitík sem hugnast okkur í minni hlutanum ekki.