Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að við séum komin þetta langt með bandorminn og getum tekið hann til atkvæðagreiðslu. Ég heyri töluverða umræðu um krónutölugjöldin sem ríkisstjórnin hefur haldið aftur af hækkunum á í mörg ár, 2,5% hækkun t.d. á árinu 2022 og verðbólgan reynst mun meiri þannig að þau hafa lækkað verulega að raungildi. Nú segjum við: Látum gjöldin hækka í takt við verðlag. Þá koma hér fulltrúar flokka hver á eftir öðrum, Samfylkingin, Píratar og aðrir og býsnast yfir þessu og segja þetta algjöra skömm. Sömu flokkar og byrjuðu árið á því að hækka mun meira en ríkisstjórnin, eða um 4,5% og hækkuðu síðan um 4,5% 1. september og eru alls staðar í sveitarstjórnum að hækka gjaldskrár sínar í takt við verðlag, en koma svo inn á þing og segja þetta algjöra skömm. Þetta er auðvitað svo holur málflutningur sem fylgir þessu framferði að það er ekki hægt að taka nokkurt einasta mark á þessu fólki.