Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er hjákátlegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra skýla sér á bak við þrönga stöðu sveitarfélaga, aðþrengd og fjársvelt sveitarfélög sem hafa ekki þá tekjustofna sem ríkið t.d. býr yfir og sem við á Alþingi erum sífellt að hlaða verkefnum á án þess að fjármagn fylgi. Það er hjákátlegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra benda á þau og segja: Sjáið þið bara, þau eru að hækka gjöld, þess vegna skulum við gera það af sama krafti og jafnvel gefa enn frekar í. Þetta er versti mögulegi tíminn til að hækka flöt krónutölugjöld sem leggjast þyngst á tekjulægstu heimili landsins. (Fjmrh.: …í Reykjavík.) Í Reykjavík, segir hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er versti mögulegi tíminn sem hæstv. fjármálaráðherra, ráðherra hagstjórnar og ríkisfjármála hér á Íslandi, sem er stöðugt að fetta fingur út í sveitarfélög sem hafa ekki þá tekjustofna sem hæstv. fjármálaráðherra hefur úr að velja í, hafa ekki þau hagstjórnartæki, bera ekki sömu hagstjórnarlegu ábyrgð og ríkisvaldið í velferðarsamfélagi. (Forseti hringir.) Þetta er versti mögulegi tíminn til að hækka þessi krónutölugjöld. Við höfnum þessu og leggjum fram breytingartillögu um að þau hækki miðað við verðbólgumarkmið Seðlabankans eins og verið hefur.