Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að taka undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni um þessa ódýru afgreiðslu gagnvart sveitarfélögunum þegar það er vitað mál, eins og hér var bent á, að gjaldstofnar og tekjustofnar eru með allt öðrum hætti hjá sveitarfélögunum. Það er vitað mál að stærsta ástæðan fyrir hallanum sem er núna á sveitarfélagastiginu er vanfjármögnun ríkissjóðs, undir stjórn hæstv. fjármálaráðherra, á risastórum velferðarmálaflokki. Við í Samfylkingunni lögðum fram breytingartillögu við fjárlög sem mun einnig koma fram við bandorminn um að taka 5 milljarða úr fjármagnstekjuskatti frekar en flötum krónutölugjöldum. Þetta geta sveitarfélögin ekki gert. Þau hafa ekki umboð til slíkrar skattlagningar, hafa ekki umboð eða svigrúm til tekjudreifingar. Það hefur hins vegar ríkissjóður. En ríkissjóður hefur með vanfjármögnun á stórum málaflokkum sem fara til sveitarfélaga þrýst þessari ójafnaðarpólitík yfir á sveitarfélögin, því miður. Þannig að þetta er bara mjög léleg afgreiðsla og ég bið hæstv. fjármálaráðherra að taka ábyrgð á þeirri pólitík sem hann stundar sjálfur.