Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þó að samtal milli þingmanna sé ekki meiningin í þeirra undir þessum lið þá verð ég að benda hér á að hæstv. innviðaráðherra sagði rétt í þessu að ástæða þess að gjald á fiskeldi hefði ekki hækkað nú um áramót hefði verið vegna dagsetningarinnar 1. desember. Það er allt annað en kemur fram í greinargerð og nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Þar er sagt að gert hefði verið ráð fyrir því að skýrsla frá Boston Consulting Group um framtíðarmöguleika í lagareldi og skýrsla Ríkisendurskoðunar lægi fyrir á þeim tímapunkti sem ákvörðunin yrði tekin. Það væri ágætt ef það kæmi fram á grundvelli hvors atriðisins við erum að greiða atkvæði hér í dag. Er það 1. desember sem orsakaði það að þetta mál þróaðist með þeim hætti sem það gerði? Eða er það það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar?