Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:56]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar að koma hér upp vegna orða hv. 8. þm. Norðvest., vegna fiskeldisgjalds. Hann talar þar um misræmi. Það stendur auðvitað það sem stendur í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og við ræddum hér í umræðunni í gær. Þar kom fram að árið 2019 var settur sjö ára aðlögunartími fyrir þessa grein sem er í miklum fjárfestingarfasa og uppbyggingarfasa. Matvælaráðherra er með endurskoðun í gangi á greininni til framtíðar litið. Þar er hún að vinna með m.a. Boston Consulting Group og nefndin æskir þess að þeirri vinnu ljúki núna á næsta ári og þá verði þessi gjaldtaka lögð fram til framtíðar.

Svo vil ég bara fá að segja það hér að lokum: Hér hefur hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi verið 7,7%, atvinnuleysi í október 2,8%. Það er ekkert sem bendir til að hér sé allt á vonarvöl eins og stjórnarandstaðan vill vera láta.