Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:00]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa þegar menn eru að flytja mál að þeir séu sjálfum sér samkvæmir. Ég hef setið í þessum sal og hlustað á þingmenn stjórnarandstöðunnar fara fram á að peningar verði veittir úr ríkissjóði í hin og þessi verkefni. Hér tala menn af miklu örlæti og stilla sér upp sem miklum góðmennum, vilja ausa hér fjármunum úr ríkissjóði. Það er farið fram á aukna skattheimtu, aukin útgjöld. Það er eins og ríkissjóður sé botnlaus. Og svo núna er fjármálaráðherra gagnrýndur fyrir það að það sé halli á ríkissjóði. Ég á bágt með að skilja þennan málflutning, ég verð að segja það. Ég geri þá kröfu, og almenningur hlýtur að gera þá kröfu til þingmanna hér að það sé heil brú í þeirra málflutningi. Ég vil áður en ég fer úr ræðustólnum leyfa mér að vitna í 14 ára son minn, sem er nú greindari en ég, sem sagði við mig í fyrra: Pabbi, það þarf ekki svona mikla peninga í ríkissjóð, það þarf bara að fara betur með peningana. Og ég geri það að minni tillögu hér.