Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:07]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Traust og ábyrg stjórn fjármála, sagði hæstv. menningarráðherra hér áðan. Stjórnlaus útgjaldaaukning, sagði hins vegar formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Höfum það í huga að til að vega gegn þensluáhrifunum af auknum útgjöldum þarf að afla tekna. Og hvernig kýs ríkisstjórnin að gera það? Jú, með því fyrst og fremst að hækka krónutölugjöldin sem koma harðast niður á tekjulægstu heimilunum. Hér erum við að greiða atkvæði um áfengisgjöld. Þetta eru gjöld sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sjálfur sagt að séu komin út yfir allan þjófabálk. Þannig að ég hvet hæstv. fjármálaráðherra eindregið til að vera samkvæmur sjálfum sér og samþykkja hér breytingartillögu okkar um að þetta gjald fylgi nú frekar verðbólgumarkmiði Seðlabankans en að það hækki með þessum ofsafengna hætti sem hér er lagt til, einmitt á versta mögulega tíma.