Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hér er stjórnarandstaðan að leggja til að sýna hófsemd þegar kemur að því að hækka þessi krónutölugjöld, beint á bökin á almenningi, rétt eins og flestir umsagnaraðilar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd voru sammála um að ætti að gera. Það sem ég var að vísa í áðan þegar ég sagði að þessu hefði ekki verið svarað í nefndaráliti meiri hlutans, var að það var ekki brugðist við öllum þeim viðvörunarorðum sem komu fram um að þetta væri ekki góð hugmynd. Því var ekki svarað hvers vegna þetta væri bara víst góð hugmynd. Svo þessi hækkun á áfengisgjaldinu í Fríhöfninni úr 10% í 25%, því var heldur ekki svarað gagnvart íslenskum framleiðendum á áfengi hvað ætti að gera til að koma til móts við þá, sem horfa fram á það að ein þeirra stærsta tekjulind muni líklega að þurrkast upp þegar fólk hættir að versla íslenska framleiðslu í Fríhöfninni. Hér erum við að leggja til hóflega hækkun á því. Í stað þess að fara úr 10% í 25% fari það í 12,5%. Það eru hófstillt ríkisfjármál.