Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:15]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Græna orkan, sem er samráðsvettvangur stjórnvalda og ráðuneyta og atvinnulífsins, hefur varað eindregið við þeim breytingum sem hér er verið að gera á skattlagningu ökutækja og bent á að þessar breytingar auki á verðmun milli sparneytinna bifreiða og eyðslufrekra bifreiða. Svo virðist sem þær breytingar sem hér er verið að gera hafi ekkert með loftslagssjónarmið að gera og snúist einvörðungu um að breikka tekjustofna, sporna gegn þenslu. Þar af leiðandi munum við í Samfylkingunni greiða atkvæði gegn hluta þessara tillagna og þeim hluta sérstaklega sem ýtir upp vörugjöldum á sparneytnum bílum og grefur þannig undan markmiðum um orkuskipti.