Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:25]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að fé sé tekið úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstri hjúkrunarheimila og í þeim bandormi sem við ræðum hér er það útfært með því að leggja til framlengingu á bráðabirgðaákvæði sem hefur áður verið framlengt níu sinnum. Samkvæmt lögum um málefni aldraðra er skýrt að framkvæmdasjóðurinn er ætlaður til að standa að uppbyggingu hjúkrunarheimila og dvalarheimila en ekki undir rekstri. Það fer þannig þvert gegn upphaflegum tilgangi sjóðsins að nýta fjármuni hans í rekstur hjúkrunarheimila en ekki raunverulegar framkvæmdir, uppbyggingu hjúkrunarrýma sem sannarlega er skortur á. Vegna þess legg ég til að umrædd heimild verði felld brott og það verði frekar gripið til annarra vinnubragða heldur en eilífra bráðabirgðaákvæða í þessa veruna.