Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[14:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Maður mýkist bara allur hérna upp einhvern veginn og verður hálfmeyr þegar verið er að samþykkja tillögur frá manni nánast á færibandi. Ég lagði upphaflega til að þessi tollur á frönskum kartöflum yrði felldur alveg niður. Ég kallaði þá tillögu til baka því að það virtist ekki vera meiri hluti fyrir henni. En hvað veit maður svo sem miðað við stemninguna hér í dag? En við hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir stöndum saman að breytingartillögu um að færa tollinn niður í 46% til samræmis við tollinn sem franskar kartöflur bera samkvæmt fríverslunarsamningum Íslands við Evrópusambandið og við Kanada. Þetta mun ekki hafa mikil áhrif á verðlagningu, held ég. Þau áhrif verða hverfandi. En þetta getur hins vegar aukið aðeins á vöruúrvalið. Þetta er bara svona táknrænt skref. Við erum að afnema hérna 76% ofurtoll, hæsta prósentutollinn í tollskránni á matvöru. Þetta liðkar t.d. fyrir frönskum kartöflum frá Bandaríkjunum og svoleiðis. [Hlátur í þingsal.] Þetta er kannski lítið skref fyrir Alþingi en stórt skref fyrir franskar kartöflur sem eru framleiddar í Bandaríkjunum. [Hlátur í þingsal.]