Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002. Frumvarp þetta var samið í heilbrigðisráðuneytinu í þeim tilgangi að innleiða tilskipun frá 2014 sem Evrópuþingið og ráðið samþykktu 3. apríl það ár um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Auk þess felur frumvarpið í sér innleiðingu á framseldri tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB frá 10. október 2014 um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB með því að taka saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur, en ákvæði framseldu tilskipunarinnar verða innleiddar í íslenskan rétt með reglugerð.

Virðulegur forseti. Innleiðing tilskipunar þessarar í íslenskan rétt kallar á breytingar á lögum um tóbaksvarnir, auk breytinga á reglugerð um mynd- og textaviðvaranir á tóbaki og mælingar á hámarki skaðlegra tóbaksefna, nr. 790/2011. Markmið þessarar tilskipunar er m.a. að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um losun og mæliaðferðir á losun tóbaksvara, innihaldsefni tóbaksvara, umbúðir og viðvörunarmerkingar sem og rekjanleika og öryggisþætti sem beitt er varðandi tóbaksvörur til að tryggja að þær uppfylli kröfur tilskipunarinnar. Með innleiðingu þessarar tilskipunar í íslenskan rétt er stigið framfaraskref í tóbaksvörnum. Markmið tilskipunarinnar er m.a. að vinna gegn tóbaksnotkun ungs fólks og takmarka framboð á tóbaki og eftirlíkingu af tóbaki sem er sérstaklega ætlað að höfða til þess, auk þess að tryggja gæði tóbaksvara með öryggiskröfum sem gerðar eru til þeirra.

Hvað varðar helstu atriði frumvarpsins og sjónarmiðin sem að baki þeim liggja þá má taka til hér breytingu á markmiðsákvæði laganna um að sérstaklega skuli unnið gegn tóbaksnotkun ungs fólks og takmarka framboð á tóbaki og eftirlíkingu af tóbaki sem sérstaklega er ætlað að höfða til þess. Meginástæðan er sú að huga þarf fyrst og fremst að hagsmunum barna og ungmenna í þessum efnum. Samkvæmt tilskipuninni þarf að tilnefna lögbært yfirvald til að annast framkvæmd og eftirlit með ýmsum þáttum tilskipunarinnar. Í frumvarpinu er hér lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði falið hlutverk lögbærs yfirvalds hvað varðar framkvæmd og eftirlit um losun og mæliaðferðir, eftirlit með innihaldsefnum og losun, merkingu og umbúðum, rekjanleika og skráningu tóbaksvara og sem móttakanda tilkynninga um nýjar tóbaksvörur.

Ástæða þess að lagt er til að ÁTVR verði falið þetta hlutverk er einkaleyfi stofnunarinnar sem heildsölu- og dreifingaraðila alls tóbaks hér á landi og sú staðreynd að stofnunin sinnir nú þegar sambærilegum verkefnum. Í einkaleyfi ÁTVR til heildsölu alls tóbaks hér á landi felst sú sérstaða að nær allt tóbak ætlað til smásölu hér á landi fer um vöruhúsið. Eftirlit stofnunarinnar með innihaldsefnum, merkingum og fleiru er því einfaldara og skilvirkara en annars staðar þar sem einkaleyfi er ekki til staðar. Stöðu sinnar vegna er því talið að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé vel í stakk búin til að sinna þessum verkefnum.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um hámarksgildi losunar tóbaksvara að því er varðar tjöru, nikótín og kolsýring og hvernig mælingum skuli háttað. Þá er í frumvarpinu lagt bann við tilteknum innihaldsefnum í tóbaksvörum og jafnframt lagt bann við að setja á markað sígarettur og vafningstóbak með einkennandi bragði. Líkur eru taldar á að tóbaksneysla hefjist ef tóbaksvörur hafa einkennandi bragð annað en bragð af tóbaki, t.d. mentólbragð. Jafnframt er talið að slíkt einkennandi bragð tóbaksvara hafi áhrif á neyslumynstur þeirra sem neyta tóbaksvara. Þetta bann á ekki við um nikótínvörur líkt og nikótínpúða.

Í þessari tilskipun er lagt bann við að setja munntóbak á markað en þar sem slíkt bann er nú þegar í gildandi lögum verður engin breyting þar að lútandi. Með lögum nr. 101/1996, sem breyttu tóbaksvarnalögum, var ákveðið að banna munntóbak hér á landi. Í frumvarpinu er kveðið á um skýrslugjöf og aðra upplýsingaskyldu framleiðenda og innflytjenda um innihaldsefni og losun tóbaksvara. Jafnframt verða innleidd ítarleg ákvæði um merkingu og umbúðir tóbaksvara, þar með taldar viðvörunarmerkingar sem eiga að vera á einingarpökkum sem innihalda tóbaksvörur og öllum ytri umbúðum.

Með frumvarpinu er nýtt skráningar- og rekjanleikakerfi fyrir tóbaksvörur innleitt til að sporna við ólöglegum viðskiptum með tóbaksvörur, hvar kveðið er á um að allir einingarpakkar sem innihalda tóbaksvörur skuli merktir með einkvæmu auðkenni. Það er gert til að skrá flutning og rekja slóð viðkomandi tóbaksvöru allt frá framleiðanda til síðasta söluaðila. Í frumvarpinu er lögð sú skylda á framleiðendur og innflytjendur að leggja fram tilkynningu um nýjar tóbaksvörur sem eiga að fara á markað og aðrar vörur sem tengjast tóbaksvörur, m.a. jurtavörur til reykinga.

Að lokum eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um eftirlits- og valdheimildir eftirlitsaðila og viðurlög. Í því sambandi eru lagðar til breytingar sem kveða á um upplýsingaskyldu framleiðenda, innflytjenda og söluaðila og afhendingu sýnishorns af vöru til að sannreyna innihald og eiginleika hennar. Þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögunum er nauðsynlegt að eftirlitsaðilar geti lagt bann við áframhaldandi notkun, sölu og dreifingu og geti lagt hald á vörurnar og fargað þeim á kostnað handhafa þeirra. Þá er nauðsynlegt að viðurlagaákvæðið hafi fælingarmátt og varnaðaráhrif. Í ljósi notkunar og eiginleika tóbaksvara og hve ríka ábyrgð framleiðendur, innflytjendur og söluaðilar bera er lagt til að viðurlagaákvæði laganna verði skýrð og efld.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Mér finnst nú rétt að draga það fram hér að Alþingi hefur þegar samþykkt þingsályktunartillögu um að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2022. Hún er þá innleidd með þeim breytingum sem ég hef rakið hér um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.