Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í grunninn sammála öllu því sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór hér yfir og sérstaklega þegar kemur að viðhorfsbreytingu og fræðslu og sameiginlegri þátttöku í að breyta viðhorfinu hér síðustu áratugina í skólakerfinu, hjá stjórnvöldum, þeim sem hafa borið ábyrgð á lýðheilsunni, íþróttafélögunum og æskulýðsfélögunum, öllu félagsstarfi. Við höfum staðið okkur afar vel þar og fræðslan á þessu sviði hefur skilað miklu og hefur hjálpað einstaklingum í að taka þessa ábyrgð sem snýr að þeim sjálfum eins og hv. þingmaður fór yfir. Það mun aldrei fara frá okkur. Þetta er algjör kjarni. Ég er líka mjög meðvitaður um það sem hv. þingmaður kom inn á, að vatnið leiti sér farvegs. Allar þessar vörur sem flæða yfir og ala á þessari fíkn í nikótín, það er ekki einu sinni tóbak í þeim og við erum með það í öðrum lögum. Það er alveg nýr slagur sem við verðum að taka og við verðum að taka hann, ekkert ósvipað þessu. Við kunnum þetta. En við þurfum að fara í þá vegferð vegna þess að þetta er stórmál og það eru flestar þjóðir á hraðri leið með að fara að herða reglurnar. Nú eru Nýsjálendingar að fara að búa til tóbakslausar kynslóðir með því hreinlega að banna þetta. Danir eru að hugsa á alveg sömu nótum og þeir eru að horfa til okkar. Þetta eru fleiri þjóðir að gera. Það mun hins vegar alltaf að vera sterkasta vopnið að við hugleiðum þetta, hvert og eitt okkar, út frá fræðslu og þekkingu og fróðleiknum þegar við tökum ábyrgð á okkur sjálfum og tökum ákvarðanir sem að þessu snúa.