Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:27]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta andsvar. Ég átta mig á að um hreina innleiðingu er að ræða. Ég er kannski ósammála því, eða ekkert kannski; ég er ósammála því að við höfum ekki svigrúm til að vera ósammála jafn órökstuddu lögfræðilegu áliti. Ég tel að þingheimur hér hafi svigrúm til þess að vera ósammála þegar rökin standast ekki. Ef maður skoðar bls. 26 í frumvarpinu þá segir þar að í 16. lið formála tilskipunarinnar er vísað til þess líkur séu á að tóbaksneysla hefjist ef tóbaksvörur hafi einkennandi bragð, annað en bragð af tóbaki, og að þetta snúist um að auka bragðgæðin. En ef 16. liður formála tilskipunarinnar er skoðaður segir það samt ekki. Þannig að lögfræðilega séð tel ég að það sé svigrúm til að spyrja mjög afgerandi spurninga um hvað fólk telji sig hafa fyrir sér sem er óyggjandi, sem réttlæti þetta ójafnræði á milli neytenda með vöru, sem hefur hingað til verið lögleg en á núna að gera ólöglega á svo hæpnum forsendum. Svo ítreka ég það að ef við töpum því máli, sem ég hvet samt þingheim eindregið til þess að fara í — því að ég tel að okkur beri skylda til þess að gæta hagsmuna þeirra sem geta ekki varið sig, við höfum tækifæri til þess. Þarna er verið að banna vöru sem fullt af fólki kýs að nota. Við erum málsvarar þeirra. Ef við töpum því má ESA senda kvartanir til mín. Ég skal skal taka við þeim.