Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[21:16]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er mjög svo eðlileg spurning að bera fram og mjög sanngjörn. Ég vil nálgast svarið við henni á þann veg að þegar horft er til vistkerfis hafsins, hvort sem við erum í hafi eða á landi, þá er það jú oft og tíðum misleitt og það sem getur verið gott búsvæði, t.d. til hrygningar, er á einu svæði innan einhverra ákveðinna stærðarviðmiða eins og 12 sjómílna eða þriggja sjómílna o.s.frv. Hér er spurt: Er eðlilegra að grípa fyrst til rannsóknanna eða fara fyrst í þetta? Ég held að þetta muni gerast svolítið samtímis, einfaldlega vegna þess að þessi þróun mun ekki gerast yfir eina nótt sem hér í þessum frumvörpum er verið að búa til ívilnanir fyrir. Matvælaráðherra hefur boðað að hún vilji ráðast í þessar rannsóknir með Hafrannsóknastofnun og er þegar búin að birta í samráðsgátt það sem er utan 12 sjómílna. Ég hef því ekki áhyggjur af þessum þætti en ég skil spurningu hv. þingmanns og hún er eðlileg. Ég tel að þetta muni kannski geta gerst samhliða og það verði mikilvægt að fá þær upplýsingar sem koma út úr slíkri rannsóknarvinnu til að leiðbeina okkur enn betur og þá frekar á hvaða svæðum við getum leyft mögulega stærri skipum að veiða innan 12 sjómílna miðað við það hvernig þetta er í dag.