Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:47]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það stóð ekki til að koma upp en ég tel mig nauðbeygðan til að bregðast við þegar því er haldið fram í pontu að kaupmáttur heimilanna hafi aldrei verið meiri og hann hafi vaxið mest hér nánast bara af öllum löndum í heiminum. En ég vil bara minna á það hér í pontunni að kaupmáttur heimilanna var nánast helmingaður í hruninu og það hefur tekið verkalýðshreyfinguna heilan áratug að ná upp fyrri kaupmætti. Ég tel eðlilegt að bregðast við þegar menn hreykja sér af einhverju sem ekkert er.