Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þessi fjárlög voru svo farsæl að þau þurftu 54 milljarða kr. leiðréttingu á milli umræðna, merkilegt nokk. Það sést ekkert rosalega mikið á þeim að þau séu farsæl þrátt fyrir það. Það sér ekki í stefnuna um það hvernig eigi að leysa húsnæðisvandann eða heilbrigðisvandann eins og ég talaði um hér áðan, og það er ekkert um hinn undirliggjandi halla upp á 2,5% sem Fjármálaráð fjallaði um í síðasta áliti sínu. Við erum í þeirri stöðu að þessum stóru spurningum er ekki svarað. Þessi fjárlög eru einhvers konar millileikur á meðan ríkisstjórnin er að ákveða hvað hún ætlar að gera í hinu og þessu og við erum bara búin að bíða allt of lengi. Við sáum það við framlagningu fjárlaga, enn átti eftir að taka fullt af ákvörðunum. Þess vegna þurfti 54 milljarða kr. leiðréttingu. En er það nóg? Við höfum ekki hugmynd um það af því að við fengum ekki umsagnir frá þeim aðilum sem venjulega gefa umsagnir um fjárlög við tilbúin fjárlög, það má segja það, þau voru bara hérna rétt í byrjun desember.