Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:16]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þessa breytingartillögu um að styrkja húsnæðisbótakerfið. Þetta er samhljóða þeim tillögum sem við lögðum fram í okkar kjarapakka og það var ástæðan fyrir því að við drógum þessa breytingartillögu til baka í 2. umr., og ég er ánægð með að hún sé að koma inn eins og áður var lofað, sem er ekki hægt að segja um barnabæturnar. En við viljum fagna því sem vel er gert.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að á þeim tíma sem húsnæðisbætur stóðu hér óhreyfðar, í á að verða fimm ár, þá hækkaði leiguverðið um 40%. Á miðju þessu ári voru húsnæðisbæturnar hækkaðar um 10% og núna um 13 eða 14% þannig að þingheimur þarf líka að átta sig á, jafnt sem almenningur, að þetta fer auðvitað ekki alla leið í að bæta upp þann stórkostlega kostnað sem fólk á leigumarkaði hefur upplifað. Þetta er til að mynda rótin að þeirri ólgu sem við sjáum á vinnumarkaði og ástæðan fyrir því að hlaupa þarf til á síðustu stundu með kjarapakka á vegum hæstv. ríkisstjórnar.