Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvarið. Fyrst er mjög mikilvægt að það komi fram, og hugsanlega hefur mér láðst að koma inn á það í framsögu, að í skattalögum er það mjög vel skilgreint að þeir sem leigja út fleiri en tvær íbúðir, fleiri en tvö fasteignanúmer, stundi útleigu í atvinnuskyni. Þeir sem leigja út fleiri en eina eða tvær íbúðir eru skráningarskyldir, hvort sem þeir eru einstaklingar eða rekstraraðilar. Vissulega hefur þessi breytingartillaga áhrif en það var mat nefndarinnar á heildarhagsmunum og athugasemdum sem bárust nefndinni að það væri skynsamlegt að fara þessa leið. Það er svo mikilvægt að hafa það í huga að frekari endurskoðun á húsaleigulögum er í vinnslu. Þá er tíminn búinn.