Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svo að ég byrji á því sem ég komst ekki yfir í fyrra andsvari: Þessar breytingartillögur hafa ekki verið bornar sérstaklega undir umsagnaraðila en það var ljóst að varðandi ýmis atriði í frumvarpinu voru mjög skiptar skoðanir í upphafi og ólíkar áherslur. Varðandi afmörkun kæruheimildar þá kom sú ábending í raun fram strax við kynningu frumvarpsins til nefndarinnar, um að þarna þyrfti að bregðast við með hagsmuni beggja aðila í huga. Ég þori ekki að fara með það akkúrat við hverja hún var rædd, ég hef það bara ekki á hraðbergi en ég veit að hún hefur komið inn eftir ábendingar úr fleiri en einni átt og frá fleiri aðilum. En breytingin á frumvarpinu verður auðvitað til þess að það reynir á hvatana til skráningar og að mati þeirrar sem hér stendur eru hvatarnir til skráningar auðvitað til allra þeirra sem munu sækja um húsaleigubætur en ekki síður til einstaklinga sem hafa ekki atvinnu af útleigu húsnæðis að geta nýtt sér gott rafrænt kerfi, sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er með í vinnslu og verður tilbúið, eftir því sem ég best veit, um leið og frumvarpið tekur gildi sem leiðir fólk í raun í gegnum hvað þarf að gera við gerð húsaleigusamnings.