Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[13:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður tilgreindi að skráning yrði leigutaka að kostnaðarlausu. Það þýðir auðvitað ekki að aðgerðin sé kostnaðarlaus. Var lagt mat á kostnað hins opinbera við að koma þessu á annars vegar og við að reka þetta kerfi hins vegar? Í fljótu yfirliti, um mat á áhrifum í 6. lið greinargerðar, sýnist mér þetta allt eiga dálítið að gerast af sjálfu sér kostnaðarlega.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann og framsögumann nefndarálits meiri hluta með hvaða hætti var fjallað um kostnað sem af þessu hlýst, annars vegar stofnkostnaðinn og hins vegar árlegan rekstrarkostnað?