Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[13:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, skráning samninga og breytinga á leigufjárhæð. Ég hef svona af kerskni kallað þetta letidýrafrumvarpið hér í þinginu. Mér sýnist fljótt á litið að hægt sé að ná fram markmiðunum, um dýpri skilning á undirliggjandi verðum á markaðinum, með miklu minna íþyngjandi hætti en hér er lagt til. Letidýrafrumvarpið — það nafn kom til vegna þess að mér sýnist á öllu að það hafi þótt þægilegra að gera þetta svona, það væri í raun minna álag á þá sem vilja draga þessar upplýsingar fram en að draga þær fram úr þeim gögnum sem fyrir liggja.

Það kom fram í umsögn Húseigendafélagsins við síðustu framlagningu þessa máls, að mig minnir, að um 10.000 leigusamningum sé þinglýst á ári. Ég held að það væri draumastaða hvers fyrirtækis sem sérhæfir sig í skoðanakönnunum eða að greina markaði að hafa 10.000 þinglýsta samninga árlega til að vinna úr til að greina þróun á markaði. Ég held því að hér sé verið að fara miklu lengri og meira íþyngjandi leið en nauðsynlegt er til að ná fram þeim gögnum sem ætlunin er að draga fram. Það er auðvitað þannig að ég, og við í þingflokki Miðflokksins, þreytist ekki á að gagnrýna vöxt báknsins. Hér virðist enn bætt í með þeirri miklu skráningarskyldu sem kallað er eftir um skyldu leigusala til að skrá leigusamning í sérstakan gagnagrunn hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þegar við vitum að allur meginþorri leigusamninga er þinglýstur vegna þeirra undirliggjandi reglna sem snúa að húsaleigubótum og tengdum málum. Eins og ég segi þá er um 10.000 leigusamningum þinglýst á ári og leigusamningarni um kompurnar gluggalausu sem verið er að leigja á okurverði verða ekkert frekar í þessum grunni en í þinglýstum kaupsamningum sýslumanns. Sá hluti markaðarins mun, ef eitthvað er, stækka enn frekar við þessar breytingar.

Mér sýnist á þeim gögnum og umsögnum sem fyrir liggja að markaðurinn sé u.þ.b. 60% einstaklingur að leigja einstaklingi. Umræðan í fjölmiðlum hefur verið býsna áköf síðustu daga og það verður að skoða hvert mál fyrir sig þegar svona stökkbreyting verður í leiguverðum en samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úr þinglýstum samningum nú þegar þá er staðan sem betur fer skárri en málað hefur verið upp í umræðum síðustu daga þó að ég sé í engu að réttlæta það að gengið sé of hart fram í kostnaðarhækkunum eða leiguverðshækkunum.

Ég leyfi mér að líta í umsögn Húseigendafélagsins um frumvarp til breytinga á húsaleigulögum, sem við ræðum hér, frá 31. maí 2022. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur samkvæmt þinglýstum leigusamningum frá apríl 2020 til apríl 2022 að raunhækkun húsaleigu hefur ekki orðið á því tímabili.“ — raunhækkun húsaleigu hefur ekki orðið á því tímabili — „Húsaleiga hefur á því tímabili aðeins hækkað um tæp 10%, en laun um 17% og íbúðaverð um 39%.“

Mér láðist að skoða þróun vísitölu neysluverðs á þessum tíma en hún er í öllu falli alveg örugglega ofan við þau 10% sem þarna eru tilgreind sem meðalhækkun í þeim þinglýstu samningum sem tiltækir eru frá apríl 2020 til apríl 2022, sem sagt á tveggja ára tímabili. Ég held að það sé margra hluta vegna, kannski sérstaklega gagnvart hagsmunum leigjenda, mikilvægt að umræðan um þessi mál sé byggð á staðreyndum. Það verða alltaf þessi mál sem ofbjóða mörgum og jafnvel flestum, en þau þarf að skoða sérstaklega. En ef við skoðum heildarstabbann, þessa rúmlega 10.000 leigusamninga sem er þinglýst á hverju ári — mig minnir að matið sé það að á markaðnum í heild séu rétt um 20.000 íbúðareiningar í útleigu, þar af eru 60%, eins og ég segi, einstaklingur að leigja einstaklingi. Mér skilst að stóru leigufélögin, ég skil það svo, einkareknu leigufyrirtækin, haldi á ríflega 15% á leigumarkaðnum eins og hann er núna. Það er nú allt umfang þeirra félaga sé horft til heildarinnar. Þess vegna verðum við að passa okkur á að setja ekki og forma ekki hér regluverk sem letur fólk til að leigja út aukaíbúðina, hvort sem hún er í kjallara í einbýlishúsi eða aukaíbúð sem einhverra hluta vegna hefur verið til staðar, t.d. í eigu landsbyggðarfólks sem átti börn í skóla í Reykjavík og fleira slíkt. Við verðum að koma málum þannig fyrir að við letjum ekki fólk til að leigja út þessar aukaeiningar með óþarfa skriffinnsku, eftirliti og þar fram eftir götunum.

Ég held að líkurnar á því að íbúðir verði settar til annarra nota en í langtímaleigu til einstaklinga aukist mjög með þeirri nálgun sem hér er lögð til. Valkostirnir eru ýmsir. Ein leiðin er auðvitað sú að láta hana bara standa auða. Önnur leið er að setja hana í skammtímaleigu eins og Airbnb og ekki gagnast það þeim sem eru í mestum vandræðum á leigumarkaði. Þriðja leiðin er að gera þetta með einum eða öðrum hætti svart. Það er auðvitað hlutur sem við þekkjum að hefur viðgengist og hefur gert lengi og það er ekkert í þessu sem breytir því.

Svo er annað í nálguninni sem viðhöfð er í þessu frumvarpi. Það er tilhneiging til þess að nálgast leigusala dálítið eins og glæpamenn. Mér þykir hann miður sá tónn sem mér finnst heyrast hér í gegn. Eins og segir í umsögn Húseigendafélagsins, með leyfi forseta:

„Með þessu frumvarpi virðist stefnt að því að meðhöndla leigusala sem viðsjárverða glæpamenn sem þurfi að hafa í ströngum lagaböndum undir hörðu og altumvefjandi og alsjáandi eftirliti Stórabróður eða „leigulöggu“ með refsivönd á lofti og sektar til hægri og vinstri.“

Það er auðvitað ekki annað hægt en að benda á þau sektarákvæði sem hér eru innleidd, sem eru auðvitað býsna rífleg. Sektir geta numið allt að 1 milljón króna og er það mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hve há sektin er hverju sinni. Ég vek sérstaka athygli á því að ekki er horft til þess hvort brot á skráningarskyldu hafi verið af gáleysi eða af ásetningi. Þetta er kannski sá tónn sem mér þykir vera undirliggjandi í frumvarpinu öllu og mér þykir hann ekki góður. Ég hef áhyggjur af því að hann vinni til lengri tíma, og efnisatriði málsins mörg hver, gegn hagsmunum leigjenda. Því góða í þessu frumvarpi, jákvæðu markmiðunum, væri hægt að ná fram með öðrum hætti, því er hægt að ná fram úr þessum 10.000 leigusamningum sem er þinglýst árlega. Það er sennilega í fáu tilliti hægt að nálgast betri gögn til að glöggva sig á stöðu markaðar en einmitt þessi.

Staðan er vissulega snúin á húsnæðismarkaði og sérstaklega snúin á leigumarkaði, en við verðum að leysa réttu vandamálin. Við verðum að greina hver þau eru, hvað skiptir mestu máli og ganga til þess verks að leysa þau. Stóra vandamálið, og það blasir auðvitað við okkur öllum sem hér erum, er of lítið framboð. Hvers vegna skyldi nú framboðið vera of lítið? Það er m.a. vegna þess að árum saman hefur verið mjög erfitt um vik fyrir verktaka að fá lóðir til að byggja fjölbýlishús á suðvesturhorninu. Það er bara þannig.

Ég hef stundum gert grín að því að ég reikni með því að einn daginn geri bæjarstjórnir Akraness og Árborgar Dag B. Eggertsson að heiðursborgara, því að það hafa sennilega fáir ýtt með meira afgerandi hætti undir vöxt þeirra sveitarfélaga en borgarstjórinn í Reykjavík. En að öllu gríni slepptu þá er það þannig að það eru miklu augljósari, aðgengilegri og áhrifaríkari aðgerðir sem er hægt að ganga til til að bæta stöðuna á leigumarkaði en það að þenja út báknið með þeim hætti sem hér er áætlað og fara miklu meira íþyngjandi leið til að draga fram glögga mynd af stöðu á markaði.

Ég ítreka það sem ég kom inn á áðan að ég hef áhyggjur af því að þessi nálgun dragi raunverulega úr framboði á leiguhúsnæði á markaði. Það er örugglega ekki markmið neinna sem í þessum sal sitja. Og ég bara ítreka: Það er hægt að ná þeim jákvæðu markmiðum sem talað er fyrir í þessu frumvarpi fram með miklu minna íþyngjandi og kostnaðarminni hætti en hér er lagt til.

Síðan er auðvitað prinsippatriði í þessu. Leigusamningar eru auðvitað einkaréttarlegs eðlis og sú skráning sem hér er áætlað að viðhafa er þeirrar gerðar að ég hefði talið hana þurfa miklu ígrundaðri umræðu hér í þinginu og hér í þessum sal, ekki bara í þingnefndinni þar sem níu af 63 þingmönnum sitja. Við sem hér sitjum hefðum öll þurft að leggja orð í belg í þeim efnum. Það er ákveðinn kostur að halda við prinsipp. Ég hefði haldið að þeir sem teljast hægra megin við miðju, í því ríkisstjórnarsamstarfi sem nú er viðhaft, spyrntu fastar við fótum en gert er í þessu máli eins og augljóst má vera.

Hér eru breytingartillögur gerðar að frumkvæði meiri hluta hv. velferðarnefndar sem ég held að skipti ekki miklu máli á heildina litið. Það er auðvitað þannig að þó að einstaklingar sem leigja út eina eða tvær íbúðir séu undanskildir — það er verulegt hlutfall þeirra sem leigja út fasteignir á Íslandi en sú kvöð sem snýr að réttindum leigjenda til að njóta húsaleigubóta ýtir þeim leigusamningnum meira og minna öllum inn í þetta skráningarform. Í raun hefur þessi 2. liður breytingartillögu meiri hlutans í nefndaráliti ósköp lítið að segja.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Málið liggur fyrir eins og það er. Ég held að það sé heilt yfir ekki til bóta. Ég held að það væri hægt að ná jákvæðum markmiðum þess fram með mun minna íþyngjandi hætti. Ég held að eins og oft vill verða bendi kostnaðarmat frumvarpsins, þ.e. 6. liður greinargerðar, um mat á áhrifum, til þess að þeir sem þann texta hafa skrifað telji að þetta gerist meira og minna allt af sjálfu sér. Það liggur fyrir að skráning í þennan gagnagrunn verður ókeypis fyrir leigutaka en það er auðvitað þannig að af þessu öllu hlýst kostnaður, t.d. stofnkostnaður sem er undantekningarlaust meiri en gert er ráð fyrir í þessu opinbera umhverfi okkar, því miður. Hér virðist reyndar gert ráð fyrir að hann sé hverfandi ef nokkur, ef við horfum á mat á áhrifum. Síðan er rekstrarkostnaðurinn — ég bara skora á okkur þingmenn að veita athygli setningunni í fjárheimildabeiðnum næsta árs þegar kemur að vinnslu fjárlaga. Þar verður eitthvað bætt í vegna þessa, ég bara fullyrði það. Það kæmi mér mjög á óvart, svo að ekki sé meira sagt, ef svo yrði ekki.

Málið er komið á þennan stað og nefndarálit liggur fyrir. Ég held að það sé ekkert annað í stöðunni en að vona að útfærslan verði með þeim hætti að hófsemdar verði gætt, reynt að halda kostnaði í lágmarki, þenja báknið eins lítið út og nokkur kostur er með tilliti til þess sem hér er verið að gera og reyna fyrir alla muni að tryggja að frumvarp þetta gangi í raun ekki gegn því markmiði sem talað er fyrir, sem er að bæta stöðu leigjenda. Það er ýmislegt í þessu máli sem er ekki líklegt að verði til þess ef fram heldur sem horfir.