Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[15:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál sem hæstv. innviðaráðherra hefur nú lagt fram fjórum sinnum, að ég held, er einhvern veginn að komast á lokapunkt sem ég held að margra hluta vegna væri skynsamlegt að fresta um sem nemur einu ári. Það kemur fram breytingartillaga frá okkur í Miðflokknum hér á eftir þar sem þingheimi stendur til boða og óskað er eftir því, sem er í samræmi við það sem leigubílstjórar óskuðu eftir við hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag, að gildistökuákvæði frumvarpsins verði frestað til 1. janúar 2024. Ástæða þeirrar tímasetningar er að þá verður um garð gengin endurskoðun sambærilegra breytinga í Noregi sem er í gangi núna. Ég held að það væri skynsamlegt fyrir okkur að leyfa þeirri úttekt að klárast. Frumvarpið liggur þá fyrir samþykkt að öllum líkindum, mér sýnist ég lesa salinn nokkuð rétt, en við værum þá ekki að koma þessari stétt leigubílstjóra og geiranum öllum í óvissuástand sem væri hægt að forðast með því að læra af úttekt nágranna okkar í Noregi sem klárast núna á vormánuðum 2023.