Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[15:42]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að standa með Samtökum leigjenda. Það má segja að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðst hafi lítil mús. Eftir fjögurra ára vinnu sérfræðinga og kjörinna fulltrúa ásamt samvinnu hundruða einstaklinga, tveggja átakshópa og samningum við verkalýðshreyfinguna, ásamt stanslausum neyðarópum leigjenda, leggur ráðherra til að innra starf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði bætt. Með þessu frumvarpi hefur ráðherra ekki bara svikið öll sín fyrir loforð heldur einnig snúið markmiðum þess á haus og er því nú ætlað að styrkja stöðu leigusala, lögfesta sjálftöku þeirra og gefa áður óþekkt viðmið við hugtakinu sanngirni. Þannig mun húsaleiga hækka meira en áður og mun öll sú hækkun eingöngu vera á forsendum leigusala eins og mælt er fyrir í frumvarpinu.

Verði þetta frumvarp samþykkt mun það eingöngu styrkja gangverk núverandi fyrirkomulags á leigumarkaði. Það fyrirkomulag er síhækkandi húsaleiga langt umfram verðlag, viðvarandi skortur á húsnæði til kominn vegna yfirburðarstöðu leigusala, fullkomið réttleysi og húsnæðisóöryggi leigjenda. Þetta frumvarp gengur því þvert á upphaflegt markmið ráðherra um að bæta réttarstöðu leigjenda og draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði þeirra. Flokkur fólksins getur því ekki stutt þetta frumvarp.