153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

notkun rafvopna.

[15:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Rafbyssur eru tæki sem ætlað er að stöðva einstaklinga sem sýna lögreglu ógnandi hegðun eða óhlýðni við tilmælum lögreglu. Dómsmálaráðherra hefur nú ákveðið með einu pennastriki að vopna almenna lögreglumenn slíkum vopnum. Dómsmálaráðherra tók þessa ákvörðun sjálfur án aðkomu ríkisstjórnar, án lýðræðislegs samtals við þing og þjóð og vonar hann að fyrstu byssurnar verði komnar í notkun um mitt ár. Lítið hefur hins vegar heyrst frá dómsmálaráðherra um hvernig farið skuli með áhættuna af því að nota slík vopn á almenna borgara, annað en að samkvæmt regludrögum ráðherra megi ekki beita rafvopnum gegn einstaklingum í, með leyfi forseta, áberandi slæmu líkamlegu ástandi eða konum sem eru augljóslega þungaðar.

Forseti. Ég viðurkenni að þetta orðalag sló mig. Getur verið að það sé ætlun ráðherra að leyfilegt sé að nota rafbyssur gegn einstaklingum sem eru í sérstökum áhættuhópi, bara svo lengi sem það er ekki augljóst? Við vitum um fjölmörg dæmi þess að almennir borgarar verði fyrir varanlegum skaða eða dauða eftir hafa verið skotnir með rafbyssu. Notkun lögreglu á rafbyssum við handtökur erlendis hefur gjarnan verið bendluð við andlát fólks í svokölluðu æsingsóráði. Af þessu tilefni spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Hvernig ætlar ráðherra að tryggja að rafbyssum verði ekki beint gegn fólki með alvarleg geðræn vandamál, með fíknivanda eða undirliggjandi sjúkdóma, með gangráð t.d. eða gegn óléttum konum sem eru ekki augljóslega þungaðar?