153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

notkun rafvopna.

[15:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í Bandaríkjunum, þar sem notkun þessara vopna er útbreidd, er talið að síðustu 20 ár hafi yfir þúsund manns látist eftir að hafa fengið raflost úr rafbyssu í höndum lögreglu. Samt segist dómsmálaráðherra ekki hafa áhyggjur af innleiðingu slíkra vopna hér á landi, sami ráðherra og þurfti á dögunum að draga til baka ummæli sín í fjölmiðlum um hóp flóttafólks sem hann taldi vera hér á landi en fór með rangt mál og það ekki í fyrsta skipti. Ráðherra staðhæfir hér að undirbúningur hafi verið vandaður og langur að þessari reglugerð, þessari reglusetningu. Hann staðhæfir enn fremur að reynslan af þessum vopnum sé góð í nærliggjandi löndum. Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Á hverju byggir hann þessar staðhæfingar sínar? Ég fer fram á að ráðherra deili þeim gögnum með þinginu svo hægt sé að taka mark á honum. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem vill auka öryggi lögreglumanna sem við tökum öll undir: Hvernig ætlar hann að tryggja öryggi almennra borgara? Ég óska eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra svari fyrri spurningu minni.