153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

notkun rafvopna.

[15:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér er fullyrt að um 1.000 manns eða fleiri hafi látist í Bandaríkjunum vegna þessara rafvarnarvopna. Ég get ekki útilokað það. Ég þekki ekki þær tölur nákvæmlega en það er vissulega þannig að þegar verið er að beita vopnum eða varnarvopnum af einhverju tagi þá geta hlotist af því alvarlegir skaðar. Það liggur í augum uppi. Það á jafnt við um kylfur og annan slíkan búnað sem eru varnarvopn lögreglu í dag, auk skotvopna í þeim tilfellum sem það á við. Eins og ég sagði áðan erum við að horfa til þeirra reglna sem gilda í öðrum löndum í nágrenni við okkur. Við erum ekki að horfa til Bandaríkjanna í þessum efnum. Við erum fyrst og fremst að horfa til Evrópulanda og þeirrar góðu reynslu sem er hjá nágrannaþjóðum okkar þar í þessum málum. Það er sjálfsagt að deila gögnum með þinginu varðandi þetta. Til eru vandaðar skýrslur um þetta. Ég verð á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í fyrramálið til að gera nánari grein fyrir þessu.