Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

frumvarp um útlendinga.

[14:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Mig langar örlítið að svara hv. þm. Hildi Sverrisdóttur varðandi það að hér sé verið að nota einhver tæki til að koma í veg fyrir að mál sem manni hugnast ekki séu á dagskrá eða að reyna að ná þeim af dagskrá. Ég get alveg játað það fyrir hv. þingmanni hér að í gegnum þetta þing fer fullt af málum sem mér hugnast ekki, sem mér hugnast bara alls ekki neitt. En samkvæmt okkar stjórnskipan þá ræð ég því ekki ein og þau fara í gegn. Það er bara þannig.

Ástæðan fyrir því að við viljum þetta mál ekki á dagskrá er sú að það er ekki tilbúið. Það er illa unnið. Það hefur ekki verið farið fram mat á því hvort það standist stjórnarskrá. Nú er verið að tilkynna um einhverjar breytingar sem á að gera á því. Það er bara gríðarlegur klaufaskapur þarna á bak við. Það voru fengnir gestir hérna í síðustu viku, meira að segja að beiðni þingmanna meiri hlutans þrátt fyrir að búið væri að afgreiða málið úr nefnd. Þessi meðferð á þessu máli er bara alger farsi. Það þarf bara að taka þetta mál aftur inn í nefnd. Það snýst ekkert um að heimta að tekin verði af dagskrá mál sem okkur hugnast ekki. Það snýst bara ekkert um það. Þá gerðum við fátt annað hérna, held ég. (Forseti hringir.) Það er bara þannig að þetta mál er ekki tækt til umræðu í þessum þingsal. Það er bara svoleiðis.