Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:37]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þessi tölfræðileikfimi getur verið svolítið varasöm, við getum valið okkur viðmið eftir hentugleika. Auðvitað er það þannig, ef ég svara niðurlaginu í fyrirspurninni, að við í Viðreisn viljum byggja upp þannig samfélag að það geti tekið sómasamlega á móti þeim fjölda sem við eigum að taka á móti samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og því öllu. Þetta er ekki kvótakerfi. Við getum ekki gefið það út fyrir fram að við ætlum bara að taka á móti 100 þetta árið eða ekki.

Ég get líka spurt hv. þingmann, hann getur þá svarað því í umræðunni síðar: Hvað vill hann taka á móti fáum? Það er ekki hægt að hengja einhverja tölu á þetta. Megnið af fólkinu sem hingað er að koma er að koma frá Úkraínu eða Venesúela. Þetta eru ákvarðanir íslenskra stjórnvalda; annars vegar ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar, sem ég hygg að allir hér í þessum sal standi á bak við, og hins vegar er það kærunefnd útlendingamála hvað varðar fólkið frá Venesúela. Það eru sjö milljónir á flótta frá Venesúela. Þetta fólk er líka að einhverju leyti að raða sér inn í önnur Evrópuríki. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er að mælast til þess að ríki Evrópu taki betur á móti þessu fólki og að við séum ekki að horfa á þetta sem einhverja efnahagsflóttamenn, því það er það svo sannarlega ekki.

Við getum valið okkur alls konar umræðu um tölfræði og annað. (Forseti hringir.) Ég er alveg sammála því að við getum að mörgu leyti tekið Norðmenn okkur til fyrirmyndar (Forseti hringir.) en það er eitt og annað sem verið er að gera á hinum Norðurlöndunum sem við ættum kannski ekki að vera að apa eftir. Það leiðir okkur (Forseti hringir.) aftur að þeirri niðurstöðu að þegar við tölum um að við eigum að líta til Norðurlandanna er vert að hafa í huga að framkvæmd þeirra landa innbyrðis er gjörólík.