Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt, við erum ekki sammála um þessi mál. Við erum sammála um mörg önnur mál. Það sem ég er henni ekki sammála um og það sem ég er að kalla eftir er óháð álit á því hvort þetta standist stjórnarskrá. Það er ekki álit ofan úr ráðuneyti, þeir eru ekki óháður aðili, þeir eru þeir sem skrifuðu þessi lög. Það er rétt að hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar hefur, eftir því sem ég best veit, kallað inn alla þá aðila sem óskað hefur verið eftir en hv. formaður hefur ekki kallað eftir áliti um hvort þetta standist stjórnarskrá eða ekki frá óháðum aðila. Það er það sem ég var að setja út á. Það að þrýsta hlutum í gegn án þess að vera viss um hluti eins og þessa — ofbeldi er kannski of sterkt orð yfir það (BHar: Klárlega.) en það er alla vega ansi harður þrýstingur á málið. Og enn og aftur, ég sagði hér undir lok minnar ræðu að ég hefði viljað sjá sátt í þessum málum en hún næst ekki þegar fólk er ekki tilbúið til að skoða alla hlutina eins og t.d. hvort þetta standist stjórnarskrá eða ekki. Ef ég man rétt benti hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir t.d. á það hérna áðan sem Barnaheill benti á varðandi barnasáttmálann, að þar væri bent á (Forseti hringir.) þetta með mannréttindakaflann. Þetta eru allt hlutir sem við hefðum getað unnið miklu betur, (Forseti hringir.) miklu meira saman að mínu mati.