Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil taka fram að ég er framsögumaður 2. minni hluta. Við erum með breytingartillögu við þetta frumvarp sem við teljum til þess fallna að styrkja það, og við teljum það ekki ná markmiðum sínum um aukna skilvirkni sem ég tel mikilvægt að ná. Ég tel líka að fjöldi umsækjanda hér sé vegna ýmissa íslenskra sérreglna sem við eigum ekki að hafa. Þær virka eins og segull og það koma fleiri umsækjendur hingað.

Ég get tekið dæmi: Frá janúar til nóvember á síðasta ári voru umsækjendur frá Venesúela 966. Bara í nóvember voru umsækjendur frá Venesúela 202, frá Úkraínu voru þeir færri. Það er stríð í Úkraínu og þeir voru einungis 166. Þetta byggir allt á úrskurði kærunefndar um efnahagslega flóttamenn, um að efnahagsástandið sé slæmt, það sé óhreint vatn þar, há glæpatíðni, há morðtíðni o.s.frv. Heildarfjöldinn af umsóknum í fyrra er hátt í 5.000 og vel yfir 4.000. Bara frá janúar til nóvember voru 3.936 umsóknir og af þeim voru tæplega 1.000 frá Venesúela. Sér hv. þingmaður fyrir sér og er hann sammála því að Ísland ætti kannski að taka við eins og 4.000 manns á ári, næstu tíu ár? Það eru 40.000 á næstu tíu árum og myndi gjörbreyta íslensku samfélagi. Ég er ósammála því. Ég tel að við eigum ekki að gera það. Svíþjóð tók á móti 170.000 manns flóttamannaárið mikla 2015. Það jafngildir 5.200 manns á Íslandi. New York Times sagði að það væri jafngildi 5,2 milljóna einstaklinga árið 2015 — 5,2 milljónir. Það samsvarar 5.200 manns. Ég tel að við eigum ekki að gera það. En telur hv. þingmaður að við eigum að gera það? (Forseti hringir.) Ég tel að þessi málaflokkur sé kominn í algert óefni en þætti vænt um að heyra álit fyrrum formanns Samfylkingarinnar.