Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spurði sérstaklega að því hvort ég teldi að þessi breyting, sem er kannski helsta eða grundvallarbreytingin í þessu frumvarpi, muni gera það að verkum að þessir einstaklingar sem hv. þingmaður lýsti ágætlega fari af landi brott. Því get ég ekki svarað. En þetta ákvæði þjónar náttúrlega líka þeim tilgangi að senda út ákveðin skilaboð og felur í sér ákveðinn fælingarmátt, að þeir sem leiti hingað viti að fái þeir neitun eftir þetta lögmæta ferli sem ég er búinn að lýsa hér, réttláta málsmeðferð, þá hafi þeir 30 daga til að yfirgefa landið. Þetta veit þá einstaklingur sem hefur ákveðið að koma hingað og leita eftir aðstoð. Það er alveg ljóst að þegar einstaklingar vita að þeir geta verið áfram í landinu eftir að hafa fengið neitun, og fengið húsnæði og framfærslupening — þetta er metið á 300.000 kr. á mánuði, hv. þingmaður, það er nú bara töluverður peningur — þá hefur það ákveðið aðdráttarafl. Þetta ákvæði er ekki síst hugsað til að draga úr því, auk þess sem verið er að færa þetta nær regluverkinu í kringum okkur. Öll lönd í kringum okkur hafa stiglækkandi þjónustu með þessum hætti. Það er bara þannig, hv. þingmaður. Ég er talsmaður þess að við höfum sama regluverk hér og í öðrum löndum. Það eru engin rök fyrir því að við ættum að hafa eitthvert vægara regluverk en önnur lönd í kringum okkur.