153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:07]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir. Það er vissulega rétt að partur af þessu frumvarpi reynir að taka á tilhæfulausum umsóknum, en líka á fjölmörgum öðrum þáttum. Veruleikinn er sá að við erum fyrst og fremst að reyna að tryggja skilvirkni í kerfinu. Við sjáum mikilvægi þess að reyna eftir fremsta megni að auðvelda fólki að komast í gegnum verndarkerfið á mannúðlegan hátt en ef það á ekki heima þar og hefur fengið neitun, þá liggur í hlutarins eðli að við verðum að tryggja að það fari úr landi, enda á það ekki rétt hér lengur. Það er sannarlega partur af þessu frumvarpi. Það er partur af því að hafa skilvirkt kerfi eins og þekkist í öðrum löndum í kringum okkur.