Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir gott andsvar. Það er nú einu sinni þannig að það undantekningarákvæði sem er þarna inni í dag tengist eiginlega einungis mæðrum eða verðandi mæðrum; þú þarft annaðhvort að eiga barn eða eiga von á barni til að falla þar undir. Það er bara því miður of mikið um það að konur flýi mansal eða ofbeldi maka og fari þá jafnvel á milli landa til að flýja frá viðkomandi. Það er meira að segja þannig í Bandaríkjunum að þar er sérstakt dvalarleyfi, vegabréfsáritunarregla og annað fyrir konur sem hafa orðið fyrir slíku, og eru þeir nú ansi harðir þegar kemur að innflytjendamálum.

Við getum spurt: Hvað er þetta stór hópur? Stærsti hluti þeirra sem komu hingað frá Úkraínu t.d. voru konur, langstærsti hlutinn. Af hverju? Af því að karlmennirnir urðu eftir í stríði. Jú, sumar þeirra voru mæður en einhverjar þeirra voru líka stakar. Kannski voru einhverjar þeirra að nýta tækifærið til þess að flýja mansal eða flýja ofbeldissamband til lands þar sem jafnrétti er til staðar og stuðningur við þolendur slíks er talinn vera sterkur og mikill, eða alla vega talar hæstv. forsætisráðherra opinberlega mikið um það á alþjóðavettvangi.