Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:02]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég staldraði aðeins við orðalag hv. þingmanns um skort á mannúð og virðingarleysi gagnvart fólki á flótta — ég vona að ég sé að fara rétt með, það er mikilvægt að fara rétt með. Ég er með eina spurningu í tveimur liðum. Í fyrri liðnum langaði mig til að spyrja hvort hv. þingmaður hafi orðið vör við í fræðsluferðum nefndarinnar, sem hún tók þátt í, til nágrannaríkja okkar það sem hún kallar skort á mannúð og virðingarleysi gagnvart flóttafólki, í þeirra löggjöf og þeirra framkvæmd. Í seinni liðnum spyr ég, í tengslum við þetta, hvort það sé ekki í raun svo að sú þjónustuskerðing sem hv. þingmaður hefur gagnrýnt harðlega sé ekki einmitt framkvæmd á Norðurlöndunum og víðast hvar í Evrópu.