Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:31]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað þannig að það hefur verið grunnkrafa okkar í Samfylkingunni að þessi vinna fari fram og þessar breytingar séu ræddar í þverpólitísku samráði, bæði þvert á stjórnmálaflokkana og einnig þá að sjálfsögðu með því að vera í samtali við þá aðila og þau hagsmunasamtök sem eiga hér hlut að máli og hafa miklu betri innsýn og þekkingu á þessari stöðu en einstakir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar. Að sjálfsögðu eigum við að vinna þetta þannig. Það var gert en Sjálfstæðisflokkurinn hefur því miður aldrei viljað vera hluti af þeirri samstöðu. En ég hélt samt að aðrir stjórnmálaflokkar hér á hinu háa Alþingi hefðu enn áhuga á því að hafa um þetta þverpólitískt samráð. En svo virðist ekki vera, því miður.