Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég svara andsvari hv. þingmanns ætla ég bara að leiðrétta smávegis, ég gleymdi að nefna að það eru tvær og hálf milljón í Kólumbíu og tölurnar fyrir Perú, bara á síðasta ári, fóru úr hálfri milljón í eina og hálfa, þannig að við getum séð hvað þetta hefur vaxið á þessum stutta tíma.

En hv. þingmaður spurði hvort við þyrftum ekki að horfa einhvern veginn öðruvísi á þennan málaflokk. Við getum rifist um hvað er mannúð og hvort hún eigi að vera í fyrsta sæti en fyrir mér skiptir máli það sem öll grundvallargildi allrar mannúðaraðstoðar í heiminum er. Það er alltaf neyðin sem skiptir mestu máli þegar þú metur hverja þú þarft að aðstoða. Börn og konur og aðrir hópar, fatlaðir eins og hv. þingmaður nefndi, eru það fólk sem býr við mestu hættuna á því að verða illa úti þegar neyð skapast. Við eigum að sjálfsögðu að byggja upp kerfi þar sem mannréttindi og mannúð eru höfð að leiðarljósi. Sumir segja að við eigum t.d. bara að taka á móti fleira kvótaflóttafólki. Já, gerum það. Við höfum ekki verið að gera það undanfarin ár. Við höfum ekki verið að sýna að það séu leiðir fyrir flóttafólk annars staðar frá. Ég ætla bara rétt að vona að við þurfum ekki aftur að horfa upp á myndir eins og við sáum fyrir tæpum átta árum af drukknuðum börnum á ströndum Miðjarðarhafs. Það er ástæðan fyrir því að þýska ríkisstjórnin opnaði landið sitt, það var mannúð.